Skýrsla starfshóps um hlutverk lífeyrissjóða í atvinnulífinu komin út
Skýrsla um umsvif lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi, ásamt greinargerð frá Hagfræðistofnun og álitsgerð frá Landslögum um samkeppnisleg áhrif af víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnulífinu, er komin út.
Forsætisráðherra, í samráði við ráðherranefnd um efnahagsmál, skipaði starfshóp til að skoða hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs í júní 2017. Starfshópurinn fékk það hlutverk að skoða hvaða efnahagslegu og samkeppnislegu hættur fælust í víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnufyrirtækjum. Einnig hvort æskilegt væri að setja reglur eða gera lagabreytingar um eignarhald og aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja í þeim tilgangi að draga úr áhættu sjóðanna og tryggja samkeppni á markaði.
Í starfshópnum sátu Gunnar Baldvinsson, formaður, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, Áslaug Árnadóttir, lögmaður og Eggert Benedikt Guðmundsson, verkfræðingur.
Helstu tillögur hópsins eru eftirfarandi:
• Lífeyrissjóðir marki fjárfestingarstefnu til langs tíma og stefni að því að auka vægi erlendra eigna til að draga úr áhættu
• Lífeyrissjóðir séu skyldugir til að móta stefnu um stjórnarhætti lífeyrissjóða sem eigenda í atvinnufyrirtækjum
• Lífeyrissjóðum gert skylt að birta að minnsta kosti árlega skýrslu með upplýsingum um samskipti við félög sem þeir fjárfesta í og um hvernig þeir greiða atkvæði á hluthafafundum
• Stjórnvöld skoði í samráði við hagsmunaaðila að lögum verði breytt þannig að einstaklingar fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til húsnæðissparnaðar og jafnframt að sjóðfélagar geti ráðstafað 3,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða til húsnæðissparnaðar að eigin vali
• Mikilvægt að stuðla að samkeppni milli lífeyrissjóða þar sem það á við
• Lög um starfsemi lífeyrissjóða endurspegli þær breytingar er varða stjórnarhætti sem hafa orðið á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingafélög.
Starfshópur um lífeyrissjóði, endanleg skýrsla 22. janúar 2018.pdf
Álitsgerð varðandi lífeyrissjóði LOKA.pdf
Lífeyrissjóðir_lokaskjal_25okt.pdf