Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2018 Matvælaráðuneytið

Ísland og Færeyjar semja um fiskveiðimál

Yadid Levy - Norden.org - mynd

Íslensk og færeysk stjórnvöld hafa náð samningum um fiskveiðiheimildir Færeyinga innan íslenskrar lögsögu fyrir þetta ár og um gagnkvæman aðgang að veiðum í lögsögu beggja fyrir norsk-íslenska síld og kolmunna á árinu 2018.

Samið var um gagnkvæman aðgang til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld með sama hætti og á liðnu ári með þeirri breytingu að hámarksfjöldi íslenskra skipa sem getur verið á kolmunnaveiðum í einu í færeyskri lögsögu fjölgar úr 12 í 15.

Samið var um að Færeyingar geti veitt loðnu við Ísland sem nemur 5% af ákvörðuðum heildarafla í loðnu á vertíðinni en að hámarki 25.000 tonn i stað 30.000 tonna sem var áður. Áfram eru takmarkanir á heimildum Færeyinga til að verka loðnu um borð eða landa í Færeyjum til manneldis. Þó er sú rýmkun gerð að viðmiðun takmörkunar til manneldisvinnslu verður 17. febrúar í stað 15. febrúar. Eftir 17. febrúar verða færeysk skip sem sagt að landa a.m.k. 2/3 af afla sínum í íslenskum höfnum.

Heimildir Færeyinga til veiða á botnfiski verða þær sömu í ár og þær voru 2017 eða 5.600 tonn en hámark fyrir þorskveiði er áfram 2.400 tonn og 650 tonn fyrir keilu innan þessa heildarmagns.

Ísland mun áfram hafa heimild til að veiða 1.300 tonn af makríl sem eru aflaheimildir frá Færeyjum í færeyskri lögsögu en Ísland afsalar sér 2.000 tonnum af Hjaltlandssíld sem lengi hafði verið í samningi þjóðanna, án þess að Ísland hafi nýtt sér um árabil.

Þjóðirnar stefna að því að hefja vinnu við gerð rammasmnings milli landanna um fiskveiðimál sem fyrst með það að markmiði að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. september á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta