Drög að lagafrumvarpi um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.
Unnt er að senda umsagnir um drögin til og með 9. febrúar nk. og skulu þær sendar á netfangið [email protected].
- Drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi
- Skýrsla nefndar I hluti - Tillögur
- Skýrsla nefndar II hluti - Viðaukar
Efni frumvarpsins byggir að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem fram koma í skýrslu starfshópsins frá 21. ágúst sl. til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá er frumvarpið í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar en þar segir:
“Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.”
Í samræmi við þessa stefnu er markmið frumvarpsins að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu mögulegu skilyrði til uppbyggingar og það verði þannig sterk og öflug atvinnugrein. Frumvarpinu er ætlað að styðja við þennan vöxt en jafnframt leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirlit með fiskeldi. Jafnframt að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkisins er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Þá er frumvarpinu ætlað að mæta kröfum um náttúruvernd, gegnsæi, aukna upplýsingagjöf og betra aðgengi almennings að upplýsingum sem tengjast fiskeldi.
Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um auðlindagjald í fiskeldi. Þar er lagt til að rekstrarleyfishafar sem stunda fiskeldi í sjókvíum greiði auðlindagjald. Byggt er á því að auðlindagjald verði lagt á öll eldisfyrirtæki sem nýta sameiginlega auðlind, í þessu tilviki hafsvæði utan netlaga, til starfseminnar. Gengið er útfrá því að stærstur hluti auðlindagjalds renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis. Er þessi útfærsla auðlindagjaldsins einnig í samræmi við tillögur fyrrgreinds starfshóps.