Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðir til að bregðast við aukinni útbreiðslu kynsjúkdóma

Embætti landlæknis - myndVelferðarráðuneytið

Starfshópur sem falið var að gera tillögur um aðgerðir til að bregðast við aukinni útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi hefur skilað heilbrigðisráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum. Ráðherra skipaði starfshópinn í mars 2017 í samræmi við tillögu frá sóttvarnarlækni.

Í inngangi skýrslunnar kemur fram að á síðustu árum hafi orðið vart aukingar á sárasótt, HIV og lekanda hér á landi og erlendis. Ekki sé ljóst hverjar séu ástæðurnar að baki en mögulega megi rekja aukninguna til breyttrar kynhegðunar, fjölgunar ferðamanna hérlendis, aukinna ferðalaga landsmanna til útlanda og fjölgunar dvalarleyfisumsækjenda. Í skýrslunni er fjallað um fyrrnefnda sjúkdóma auk klamydíu og birtar tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu þeirra.

Lagt er til að stjórnvöld marki sér opinbera stefnu og setji skilgreind markmið  um árlega fækkun í hópi þeirra sem greinast með kynsjúkdóma. Lagt er til að fækkunin nemi a.m.k. 10% á ári. Aðrar tillögur lúta að öflun og miðlun upplýsinga um faraldsfræði kynsjúkdóma, um samræmingu verklags við greiningu og meðferð þeirra, aðgengi að greiningarprófum og notkun þeirra og skimun og greiningu kynsjúkdóma. Auk þessa er lagt til að komið verða á nálaskiptaprógrammi fyrir fíkniefnaneytendur sem sprauta vímuefnum í æð, dreifing smokka verði gjaldfrjáls til tiltekinna hópa, efnt verði til fræðslu í grunn- og framhaldsskólum, auk þess sem gerðar eru tillögur um fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk, áhættuhópa og almenning. Loks er fjallað um notkun fyrirbyggjandi lyfja gegn HIV og niðurgreiðslu þeirra.

Formaður starfshópsins var Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Aðrir nefndarmenn voru;

  • Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga LSH.
  • Baldur Tumi Baldursson, yfirlæknir húð- og kynsjúkdómalækninga LSH.
  • Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir, húð- og kynsjúkdómalæknir, fulltrúi sóttvarnaráðs.
  • Ragnhildur Sif Hafstein, fulltrúi velferðarráðuneytisins og starfsmaður starfshópsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta