Árni Páll til Uppbyggingarsjóðs EES
Árni Páll Árnason tekur við stöðu varaframkvæmdastjóra skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel á morgun, 1. febrúar en hann var tilnefndur til starfans af íslenskum stjórnvöldum. Árni Páll mun fara með samskipti við EES/EFTA-ríkin; Noreg, Íslands og Liectenstein og viðtökuríkin fimmtán.
Árni Páll er fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra 2009–2010 og efnahags- og viðskiptaráðherra 2010–2011. Hann var alþingismaður frá 2007-2016. Árni Páll er lögmaður með sérhæfingu í Evrópurétti. Hann hefur starfað að Evrópu-, viðskipta- og varnarmálum hjá utanríkisráðuneytinu 1992-1998.
Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er að draga úr félagslegu- og efnahagslegu misræmi innan evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EES/EFTA-ríkjanna og viðtökuríkjanna; Búlgaríu, Eistlands, Grikklands, Kýpur, Lettlands, Litháen, Möltu, Portúgal, Póllands, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Króatíu, Tékklands og Ungverjalands.