Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2018 Innviðaráðuneytið

Byggðastofnun falin gerð þjónustukorts í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (t.v.), og Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur falið Byggðastofnun að vinna þjónustukort í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Kortið á að sýna á aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Tilgangur þjónustukortsins er að bæta yfirsýn og skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur falið Byggðastofnun þetta verkefni í ljósi lögbundins hlutverks hennar enda hefur stofnunin þegar kortlagt hvar er að finna grunnþjónustu opinberra aðila og einkaaðila og um hversu langan veg íbúar þurfa að sækja slíka þjónustu. Mun þessi vinna stofnunarinnar því nýtast vel við gerð þjónustukorts í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem yrði undirstaða frekari stefnumörkunar um staðsetningu opinberrar þjónustu ríkisins. Á þeim grunni telur ráðuneytið að unnt verði að bæta yfirsýn og skapa um leið grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað

Ráðuneytið leggur til að Byggðastofnun annist verkefnið í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, einstök ráðuneyti eftir því sem við á og eftir atvikum fleiri aðila. Lagt er til að verkefnið verði í forgangi hjá stofnuninni og að stefnt verði að lokum þess fyrir árslok. Afurð verkefnisins verði annars vegar gagnagrunnur sem geymir upplýsingar um aðgengi allra landsmanna að almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila og hins vegar um myndræna og gagnvirka framsetningu á upplýsingum úr gagnagrunninum, aðgengilega stjórnvöldum og almenningi. Ráðuneytið óskar jafnframt eftir því að verða upplýst reglulega um framvindu verkefnisins og að staða þess verði rædd á sameiginlegum fundi í september.

Tengiliður vegna þessa verkefnis er Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta