Opið fyrir umsóknir í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á vefsíðu Stjórnarráðsins, stjornarradid.is/umsokn. Óskað er eftir umsóknum frá ungmennum á aldrinum 13 til 18 ára frá öllum landshlutum. Valdir verða tólf fulltrúar í ráðið sem mun fræðast og fjalla um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið mun þar að auki funda árlega með ríkisstjórninni. Umsóknarfrestur er til og með 16. febrúar 2018.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna í september 2015 og tóku gildi í byrjun árs 2016. Mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf eru fimm meginþemu markmiðanna og með þeim er jafnframt lögð áhersla á allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar; hina félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu.
Stofnun ungmennaráðsins er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu. Eitt af meginstefum Heimsmarkmiðanna er jafnframt samvinna milli hagsmunaaðila. Í ljósi þess er með stofnun ungmennaráðs um Heimsmarkmiðin leitast við að gefa ungmennum vettvang til að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.