Breyttar reglur um afgreiðslu tiltekinna ávanabindandi lyfja
Lyfjastofnun hefur ákveðið að breyta reglum um afgreiðslu tiltekinna lyfja sem valdið geta ávana- og fíkn, til að hamla gegn misnotkun. Gert er ráð fyrir að nýjar reglur stofnunarinnar um þetta taki gildi 3. apríl næstkomandi.
Sagt er frá þessu í tilkynningu á vef Lyfjastofnunar þar sem jafnframt er birtur listi yfir þau lyf sem um ræðir. Með nýjum reglum stofnunarinnar verður einungis heimilt að afgreiða þessi lyf sem nemur þörf til 30 daga í senn.
Áformaður gildistími þessara reglna helst í hendur við gildistöku nýrrar reglugerðar heilbrigðisráðherra um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja nr. 1266/2017 sem einnig tekur gildi 3. apríl. Í þeirri reglugerð, þar sem áhersla er lögð á rafrænt umhverfi lyfjaávísana, eru ákvæði um hertar reglur um ávísanir til að sporna við misnotkun tiltekinna ávanabindandi lyfja. Kveðið er á um að vegna ávísunar lyfja í ATC-flokki N06BA01 (amfetamíns) og N06BA04 (metýlfenídats) skuli liggja fyrir lyfjaskírteini fyrir viðkomandi sjúkling hjá Sjúkratryggingum Íslands.