Drög að landsáætlun um innviði til umsagnar
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að landsáætlun sem fjallar um hvernig eigi að byggja upp helstu innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Fjallar hún um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Jafnframt er kynnt verkefnaáætlun um þau verkefni sem á að vinna á næstu þremur árum.
Þessi landsáætlun til tólf ára og þriggja ára verkefnaáætlun eru þær fyrstu sem unnar eru samkvæmt lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
Landsáætlunin er stefnumarkandi til tólf ára um gerð innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru og minja og skal hún lögð fram sem þingsályktunartillaga til samþykktar Alþingis. Í verkefnaáætlun eru settar fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti stuðnings 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu.
Samhliða landsáætluninni eru kynnt drög að umhverfisskýrslu í samræmi við lög um umhverfismat áætlana.
Drög að landsáætlun eru unnin af verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk umhverfis – og auðlindaráðuneytis.
Umsögnum um verkefnaáætlun skal skilað fyrir 26. febrúar nk. í gegnum samráðsgátt Stjórnarráðsins. Umsögnum um landsáætlun og umhverfisskýrslu skal skilað fyrir 19. mars nk., einnig á samráðsgátt. Nánari upplýsingar veitir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, netfang [email protected]
- Drög að landsáætlun um uppbyggingu innviða og þriggja ára verkefnaáætlunar á samráðsgátt Stjórnarráðsins
- Drög að umhverfisskýrslu landsáætlunar um uppbyggingu innviða á samráðsgátt Stjórnarráðsins