Kristján Þór heimsótti Hafrannsóknastofnun
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsótti í gær höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna og fékk kynningu á starfsemi stofnunarinnar en hún gegnir lykilhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu og verndun auðlinda hafs og vatna.
Ráðherra ræddi við starfsfólk og fékk kynningu á helstu verkefnum stofnunarinnar, m.a. á framgangi átaksverkefnis um kortlagningu hafsbotnsins. Markmið verkefnisins er að afla þekkingar um hafsbotninn innan efnahagslögsögu Íslands sem mun nýtast í margháttuðum tilgangi og er forsenda fyrir vísindalegri nálgun við nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu, á, í og undir hafsbotni. Stefnt er að því að ljúka við kortlagningu með fjölgeislamælingum innan efnahagslögsögunnar á næstu 12 árum.