Menntamálaráðherrar Suður-Kóreu og Íslands vilja hefja samstarf í menntamálum
Að auki auki ræddu ráðherrarnir þær áskoranir sem bæði ríkin standa frammi fyrir í menntamálum og framþróun á því sviði. Suður-Kóreska menntakerfið hefur komið vel út í alþjóðlegum samanburði.
Fram kom í máli menntamálaráðherra Suður-Kóreu að lykillinn að velgengni menntakerfisins væri góð umgjörð í kringum kennarastarfið en það nýtur mikillar virðingar. ,,Stjórnvöld leggja mikla áherslu á samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir kennara. Að auki er mikil símenntun hjá kennurum sem tekur mið af þeim hröðu tæknibreytingum sem eru að eiga sér stað“, sagði Kim Sang-Kon.
,,Þetta var mjög gagnlegur fundur sem markar nýtt upphaf í samskiptum þjóðanna á sviði menntamála. Suður-Kórea hefur getið sér gott orð fyrir þróttmikið og öflugt menntakerfi. Kennarastarfið er í hávegum haft í Suður-Kóreu og færri komast að í kennaranámið en vilja. Það er mikilvægt að styrkja alla umgjörð í kringum kennarastarfið og fara í markvissar aðgerðir til takast á við þann mikla kennaraskort sem blasir við að öðru óbreyttu“, sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Fundurinn er hluti af dagskrá ráðherra, sem undanfarna daga hefur kynnt sér suður-kóreskar menntastofnanir.