Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjármálalæsi íslenskra nemenda metið í PISA árið 2021

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að Ísland verði með í valkvæðum hluta PISA-könnunarinnar árið 2021 sem snýr að fjármálalæsi 15 ára nemenda. Tilgangur þessa hluta PISA er að meta hæfni nemenda til að beita fjármálalegri þekkingu sinni og leikni í raunverulegum aðstæðum, þ.m.t. að taka fjármálalegar ákvarðanir.

„Fjármálalæsi er grunnfærni sem er mikilvæg samfélagi okkar. Ljóst er að gott fjármálalæsi skilar sér í betri ákvarðanatöku einstaklinga í fjármálum og stuðlar að fjármálastöðugleika. Ég tel brýnt að íslensk ungmenni taki þátt í fjármálalæsi í PISA-könnunni og því hefur þessi ákvörðun verið tekin,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á vegum OECD á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúrufræði og læsi á stærðfræði. Auk þessara kjarnagreina geta löndin valið um að taka þátt í nokkrum viðbótarkönnunum sem eru annað hvort í formi spurningalista eða prófs. Fjármálalæsi er eitt af þessum valkvæðu sviðum og hefur verið í boði síðan árið 2012. 15-18 lönd hafa tekið þátt í þeim hluta PISA-könnunarinnar.

PISA könnunin sem nær til yfir 80 þjóða er eina alþjóðlega samanburðarrannsóknin á frammistöðu menntakerfisins sem fram fer hér á landi. Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti með mismunandi áherslur hverju sinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta