Hoppa yfir valmynd
8. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skarður hlutur kvenna í fjölmiðlum og gagnsemi jafnréttisáætlana

Rætt um kyn og fjölmiðla - myndVelferðarráðuneytið
Konur, karlar, fjölmiðlar og lýðræði var meðal umfjöllunarefna á jafnréttisþingi sem lauk í dag. Hægt gengur að jafna kynjahallann í fjölmiðlum en augljós árangur hefur orðið hjá RÚV (Ríkisútvarpinu) eftir að stofnunin setti sér skýr markmið um að ná jafnvægi milli kynja í hópi viðmælenda.
 
Á málþinginu var kynnt greining á nýlegum gögnum Fjölmiðlavaktarinnar á hlut kvenna og karla sem viðmælenda fjölmiðla. Niðurstöðurnar sýna að á tímabilinu sem gögnin taka til, þ.e. árin 2011- 2016, hefur lítil breyting orðið á kynjahlutfalli viðmælenda í fjölmiðlum (sjá töflur í meðfylgjandi skýrslu félags- og jafnréttismálaráðherra um þróun jafnréttismála, undir kaflanum Kyn og fjölmiðlar bls.  í fylgiskjali bls. 75 - 83). 
 
Í skýrslunni er meðal annars minnst á fyrstu rannsóknirnar á kynjaðri einsleitni viðmælenda í fjölmiðlum á Íslandi en rannsóknir hennar árin 1966–1986 leiddu í ljós að fyrstu fimm ár fréttastofu Ríkissjónvarpsins var ekki talað við konur í fréttum. Í kjölfar seinni bylgju kvennahreyfingarinnar upp úr 1970 tóku konur að birtast á skjánum og árið 1986 voru þær orðnar 13% viðmælenda.
 
Þótt einungis einn dagur sé vaktaður færa niðurstöðurnar hlutfallstölur yfir tíma og gera alþjóðlegan samanburð mögulegan. Árið 2005 sýndu niðurstöður GMMP að hlutfall kvenna sem fjallað var um í fréttum var 21% eða ein kona á móti hverjum fimm körlum. Íslenskar rannsóknir á kynjahlutfalli í fjölmiðlum hafa leitt svipaðar niðurstöður í ljós eins og nánar er fjallað um í skýrslunni. Þar kemur einnig fram að þrátt fyrir átak kvennahreyfingarinnar og alþjóðlegan þrýsting hafi sýnileiki kvenna í fjölmiðlum aukist hægt. „Í alþjóðlegum samanburði eru konur viðfangsefni frétta í innan við fjórðungi fréttaefnis. Hlutfallið er að jafnaði nokkuð hærra á Norðurlöndunum; hæst 32% í Svíþjóð en lægst á Íslandi, 23%.” (Edström 2014).
 
Kynjajafnvægi í allri dagskrá RÚV árið 2017
Í kjölfar þess að RÚV setti sér markmið um að ná jafnvægi milli kynja í hópi viðmælenda sinna hafa orðið verulegar breytingar hjá stofnuninni hvað þetta varðar. Í  febrúar síðastliðnum var birt opinberlega kynjauppgjör ársins 2017 fyrir alla miðla RÚV. Niðurstaðan er jafnvægi í allri dagskrá RÚV, þar sem hlutfall karla er 51% en hlutfall kvenna 49%.   Í fréttum er lengra í land því þar voru 64% viðmælenda karlar en 36% konur.
 
Í meðfylgjandi skýrslu segir að RÚV hafi sett sér skýr markmið um að ná jafnvægi milli kynja í hópi viðmælenda: „Markmiðið er að það séu algerlega jöfn kynjahlutföll í allri dagskrá allra miðla, þar er krafan að tekin séu viðtöl við jafnmargar konur og karla. Fréttir endurspegla samfélagið sem við búum í og í því samfélagi er því miður ekki enn jafnvægi á milli kynja í valdastöðum, t.a.m. í stjórnmálum og stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Því þótti óraunsætt að setja jafn ströng viðmið fyrir fréttir og aðra dagskrá. Af þeim sökum var sett það viðmið að hlutfall kvenna sem viðmælenda í fréttum á ársgrundvelli yrði yfir 35% á árinu 2017 og myndi svo vaxa jafnt og þétt á næstu árum.“
 
Í málstofu á jafnréttisþinginu voru þessi mál til umræðu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir flutti ávarp, Helga Ólafs fjölmiðlafræðingur fjallaði um þessi efni og í pallborði skiptust á skoðunum Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, Sunna Karen Sigurþórsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. Umræðum stjórnaði Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta