Hoppa yfir valmynd
13. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mikill áhugi á íslenskum lausnum á sviði jafnréttismála

Mikill áhugi á íslenskum lausnum á sviði jafnréttismála - myndVelferðarráðuneytið

Fullt var út úr dyrum og komust færri að en vildu á hliðarviðburð sem Ísland stóð fyrir á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn er í New York. Velferðarráðuneytið stóð fyrir viðburðinum í samstarfi við Alþingi, landsnefnd UN Women og Kvenréttindafélag Íslands.

Efni viðburðarins var stafrænt ofbeldi á netinu í formi kynjaðrar hatursorðræðu og hótana og neikvæð áhrif þessa fyrir þátttöku kvenna á opinberum vettvangi og þróun lýðræðis. Meðal umræðuefna var hlutverk löggjafans við að stemma stigu við stafrænu ofbeldi sem beinist gegn konum á grundvelli kynferðis þeirra, þróun hugmynda um karlmennsku og kynjajafnrétti.

Netið er í senn mikilvægur vettvangur lýðræðislegrar umræðu og stafrænt samfélag þar sem haturstal og hótanir í garð tiltekinna hópa eða einstaklinga þrífast. Konur sem taka þátt í opinberri umræðu, ekki síst fjölmiðla- og stjórnmálakonur, verða oftar en karlar fyrir hatrömmum árásum sem fela í sér hatursfull ummæli sem beinast að kynferði þeirra og hótanir af kynferðislegum toga. Sá veruleiki kvenna var afhjúpaður í sögum kvenna sem voru birtar voru undir myllumerkinu #metoo og #ískuggavaldsins. 

Á fundinum var meðal annars fjallað um hættuna sem lýðræðinu kann að stafa af kynjuðu stafrænu ofbeldi þegar fram í sækir. Vísað var í niðurstöður rannsókna sem gefa til kynna að konur haldi sig frekar til hlés eftir að hafa orðið fyrir stafrænu ofbeldi eða af ótta við að verða fyrir slíku ofbeldi. Þetta geti framkallað lýðræðishalla ef ekkert er að gert. Hér bera stjórnvöld og stjórnendur fjölmiðla- og samfélagsmiðlafyrirtækja ríka ábyrgð.

Enn sem komið er ná hegningarlög sem kveða á um hvað fellur undir refsiverð meiðyrði og hótanir ekki til kynferðis, heldur eingöngu þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar og  kynvitundar.  Er það álit margra að þessu þurfi að breyta þar sem skert þátttaka kvenna í opinberu lífi vegna ótta við stafrænt ofbeldi gangi gegn markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og ýmsar aðrar manréttindaskuldbindingar sem snúa að tjáningarfrelsi og mikilvægi þess að stjórnvöld tryggi skilyrði fyrir þátttöku allra í opinberu lífi.

Á fundinum var jafnframt fjallað um karlmennskuímyndir og hegðun og hvernig megi fá unga menn og drengi til að ganga til liðs við konur og stúlkur um aukið kynjajafnrétti.  Kynjafræði og jafnréttissinnuð kynfræðsla þurfi að vera skyldufag í skólum og hafa þannig áhrif á gildi og hugmyndir barna um eigin kynhlutverk sem og ábyrgðar í umræðum og myndbirtingum á netinu.

62. Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna fer fram dagana 12. til 23. mars í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

Mynd: Fulltrúar Íslands í S-inu sínu.

Fulltrúar Íslands í S-inu sínu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta