Ræddi við bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar um rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fundaði í dag með bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar um mögulegt rekstrarfyrirkomulag nýrrar Vestmannaeyjaferju.
Ráðherra boðaði til fundarins í framhaldi af fjölmennum íbúafundi í Eyjum 21. febrúar sl. um samgöngur á sjó. Á fundinum með bæjarstjórn var rætt um hvaða rekstrarfyrirkomulag nýrrar ferju myndi tryggja bestu og hagkvæmustu þjónustuna. Fram kom í máli ráðherra að af þeim möguleikum, sem hann fór yfir á íbúafundinum, væri útboð til skemmri tíma, mögulega til tveggja ára, hagkvæmasta leiðin. Ráðherra minnti á að útboð væri almennt viðurkennd leið til að ná hagkvæmri niðurstöðu fyrir almenningssamgöngur, eins og gert er nú á sjó, landi og í lofti, enda sé sú þjónusta sem óskað er eftir vel skilgreind.
Ráðherra hlustaði á sjónarmið heimamanna sem óskuðu eindregið eftir því að gerður yrði samningur við Vestmannaeyjabæ um rekstur ferjunnar.
Á fundinum lagði ráðherra til að samráðshópur með fulltrúum Vegagerðarinnar, ráðuneytisins og Vestmannaeyingum kæmi að undirbúningi útboðsskilyrða s.s. skilgreiningu á þjónustu með hag íbúa að leiðarljósi.
Engin niðurstaða náðist á fundinum, en fundargestir voru sammála um að markmiðið væri að tryggja hag íbúa Vestmannaeyja, fyrirtækja og annarra sem best.
Viðræðum verður haldið áfram og mun ráðherra boða til næsta fundar eftir helgi.