Aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna árásar í Salisbury
Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, og helstu aðildarríki Evrópusambandsins hafa ákveðið að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Í flestum tilvikum vísa þessi ríki rússneskum stjórnarerindrekum úr landi. Af hálfu Íslands felast aðgerðirnar í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri.
Eftir að hafa borið ákvörðun ríkisstjórnarinnar undir utanríkismálanefnd Alþingis kallaði utanríkisráðherra sendiherra Rússlands á sinn fund nú síðdegis og greindi honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.