Samstarf um meistaranám í máltækni
„Aðgerðaáætlun um máltækni er hluti af stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Við vitum öll að íslenskan á undir högg að sækja í stafrænum heimi en það er okkar að tryggja stöðu hennar og þróun til framtíðar. Þessi námsleið mun liðsinna okkur í því – hér verður til dýrmæt fagþekking sem byggir á brautryðjendastarfi fræðimanna og frumkvöðla,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Máltækni byggist á samvinnu málvísinda, tölvunarfræði, verkfræði og fleiri greina. Með meistaranámi í máltækni eru þessar greinar tengdar saman. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa undanfarinn áratug þróað þessa námsleið og tekið inn nemendur annað hvert ár – nú síðast árið 2015. Með samningnum er tryggt fjármagn til skólanna til fimm ára og verður námið eflt til muna með þátttöku fleiri deilda innan þeirra.
Hér má lesa verkáætlun um máltækni fyrir íslensku 2018-2022.