Hoppa yfir valmynd
31. mars 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Örugg utanspítalaþjónusta

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Sjúkraflutningar eru mikilvægur hlekkur í góðri heilbrigðisþjónustu. Fyrsta snerting einstaklinga við heilbrigðiskerfið er í mörgum tilvikum í gegnum fyrstu hjálp á vettvangi slyss eða sjúkraflutninga og á síðustu árum hafa sjúkraflutningar aukist mjög í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Á Suðurnesjum hefur umfang sjúkraflutninga til dæmis aukist um 25% á milli áranna 2014 og 2017 og um 17% á sama árabili á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru sjúklingar oft keyrðir um lengri veg nú en áður.

Breyttar aðstæður á landsbyggðinni hafa einnig áhrif á kröfur til utanspítalaþjónustu um land allt. Eftir sem áður þarf að tryggja íbúum landsbyggðarinnar örugga fyrstu hjálp á vettvangi og öruggan sjúkraflutning á sérhæfð sjúkrahús þegar aðstæður krefjast. 

Breytingar á þjónustu heilbrigðisstofnana í dreifbýli, fjölgun ferðamanna, meiri ferðamennska á hálendinu, breytt fæðingarþjónusta á landinu öllu og fleira kalla á endurskipulagningu utanspítalaþjónustu á landinu öllu. Þá kalla breyttar aðstæður á annars konar og meiri kröfur um færni og menntun sjúkraflutningamanna. 

Nauðsynlegt er að endurskoða stefnu í sjúkraflutningum sem samþykkt var í heilbrigðisráðuneytinu árið 2008 og endurskoðuð árið 2012. Ríkisendurskoðun hefur bent á það í úttektarskýrslum sínum að heildarstefnu í sjúkraflutningum skorti. Að mínu mati þurfum við að endurskoða  og uppfæra þær tillögur sem settar voru fram í skýrslum um skipulag sjúkraflutninga frá 2008 og 2012 . Sú vinna er raunar þegar hafin í heilbrigðisráðuneytinu, en nú er að störfum starfshópur sem vinnur að tillögum vegna endurskipulagningar sjúkraflugs. Þegar starfshópur um sjúkraflug hefur skilað tillögum sínum, nú fljótlega eftir páska, hyggst ég hefja vinnu við endurskipulagningu sjúkraflutninga um land allt. Undirbúningur að því samráði er þegar hafinn og í þeirri vinnu hyggst ég kalla alla að borðinu sem tengjast sjúkraflutningum, með það að markmiði að marka heildarstefnu í málaflokknum.

Þegar slys ber að höndum getur skjótt viðbragð á vettvangi skipt sköpum. Því skiptir miklu að tryggja gæði og öryggi þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er á vettvangi, og einnig að sjá til þess að flutningar á næstu heilbrigðisstofnun séu skjótir og öruggir. Utanspítalaþjónusta er ómissandi þáttur í bráðri heilbrigðisþjónustu og marka þarf heildarstefnu í málaflokknum sem tekur mið af breyttum aðstæðum hérlendis. Það munum við gera.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta