Fjármálaáætlun 2019-2023: Umtalsverð aukning til heilbrigðismála
Útgjöld til reksturs heilbrigðismála munu aukast um 79 milljarða króna alls á næstu fimm árum miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Stofnkostnaður, m.a. vegna byggingaframkvæmda, verður 101 milljarður á tímabilinu. Stefnt er að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar, þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum.
Fjármálaáætlun endurspeglar þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í áætluninni er meðal annars lögð aukin áhersla á gæðaviðmið í heilbrigðisþjónustunni og markvissa nýtingu almannafjár.
Meðal verkefna tímabilsins er gerð heilbrigðisstefnu, að skapa aðstæður fyrir aukna göngudeildarþjónustu á Landspítala auk áframhaldandi framkvæmda við spítalann, þar á meðal byggingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss við Hringbraut.
Áhersla er lögð á að fjölga menntuðu heilbrigðisstarfsfólki sem býr við gott starfsumhverfi og starfskjör, markvissa þverfaglega teymisvinnu, tækifæri til starfsþróunar og þátttöku í þekkingarþróun og vísindastarfi.
Framlög til geðheilbrigðismála verða aukin á tímabilinu og komið verður upp geðheilsuteymum um allt land í samræmi við aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum. Þá verður unnið á markvissan hátt að því að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og efla hana sem fyrsta viðkomustað. Fyrirkomulag sjúkraflutninga verður tekið til endurskoðunar í samræmi við þarfagreiningar, og áhersla lögð á öryggi og gæði þjónustunnar. Hjúkrunarrýmum verður fjölgað um 300 frá fjármálaáætlun síðastliðins árs.
Skimun vegna ristilskrabbameins mun hefjast á tímabilinu og áfram verður stutt við heilsueflandi samfélög. Unnið verður að því að bæta aðgang almennings að nauðsynlegum lyfjum. Þá verður aðgangur þeirra er nota vímuefni í æð að hreinum sprautubúnaði tryggður og ráðist í aðgerðir til að sporna við misnotkun á geð- og verkjalyfjum. Neyslurými fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur verður opnað. Stefnt verður að því að bæta aðgengi að hormónatengdum getnaðarvörnum og að dreifa smokkum gjaldfrjálst til tiltekinna hópa, auk þess sem kynfræðsla verður aukin.
Áhersla er lögð á áframhaldandi uppbyggingu og þróun rafrænnar skráningar, rafrænna samskipta og uppbyggingu rafrænnar sjúkráskrár á landsvísu. Rafræn samskipti við sjúklinga verður bætt og fjarheilbrigðisþjónusta efld.