Ísland í 1. sæti meðal þjóða heims í upplýsingatækni og fjarskiptum
„Ríkisstjórnin hefur metnað til að Ísland haldi stöðu sinni sem eitt af forysturíkjum heims í fjarskiptainnviðum og nýtingu þeirra í þágu samfélagsins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftir að hafa veitt viðtöku viðurkenningu frá Alþjóðafjarskiptasambandinu (ITU) þar sem Ísland náði þeim árangri að verða í 1. sæti á heimsvísu á einkunnalista sambandsins árið 2017 í upplýsingatækni og fjarskiptum. Houlin Zhao, aðalritari sambandsins, kom hingað til lands til að afhenda viðurkenninguna á fundi í morgun þar sem sviðsljósinu var einnig beint að stöðu og framtíðarsýn í fjarskiptum.
Ísland góð fyrirmynd
Houlin Zhao, aðalritari Alþjóðafjarskiptasambandsins, óskaði Íslendingum til hamingju með góðan árangur í uppbyggingu fjarskiptainnviða og þróun upplýsingasamfélagsins. „Ísland er góð fyrirmynd m.a. fyrir þann metnað sem lagður hefur verið í að koma háhraðatengingum til strjálbýlli svæða,“ sagði hann. Það vekti athygli að Ísland næði að byggja upp fjarskiptainnviði á heimsmælikvarða þrátt fyrir að landið væri strjálbýlt og fámennt í samanburði við flest önnur lönd.
Í ávarpi sínu á fundinum kynnti Houlin Zhao margþætt hlutverk Alþjóðafjarskiptasambandsins, sem er ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Eitt af hlutverkunum er að fylgjast með stöðu og þróun fjarskipta í ríkjum heims og frá árinu 2009 hefur sambandið árlega gefið út skýrslu þar sem metin er staða upplýsingasamfélagsins. Við mat á stöðu landanna sem gerð er úttekt á, alls 176 talsins, er byggt á 11 mælikvörðum þar sem m.a. eru mældir ýmsir þættir er varða aðgengi að fjarskiptatengingum, fjarskiptaþjónustu, tölvum og upplýsingatækni ásamt færni og notkun tækninnar.
Að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins einkenna nokkrir þættir þau lönd sem raðast í efstu sæti listans. Í þessum löndum ríkir samkeppni á fjarskipta- og upplýsingatæknimarkaði, fjárfestingar á þessum mörkuðum hafa verið miklar og nýsköpun umtalsverð. Góður efnahagur, læsi og almenn menntun í löndunum stuðla svo að því að almenningur geti nýtt upplýsinga- og fjarskiptatækni til fulls í eigin þágu. Houlin Zhao sagði að ITU hefði áhyggjur af því að bilið milli þeirra sem hefðu aðgengi að fyrsta flokks fjarskiptainnviðum og rafrænni þjónustu og þeirra sem hvorki hafa slíkan aðgang né hafa þekkingu til að nýta sér hana, væri stöðugt að breikka.
Ísland var í 2. sæti á lista samtakanna árið 2016, en skaust upp fyrir Suður-Kóreu árið 2017, í þriðja sæti er Sviss og Danmörk í því fjórða. Norðurlöndin eru öll á lista yfir 20 efstu löndin. „Það er mikil áskorun að reyna að halda fyrsta sætinu á heimsvísu,“ sagði hann.
Samstarf um mótun nýrrar stefnu
„Hvað höfum við verið að gera rétt og hvernig getum við nýtt þessa stöðu til framdráttar fyrir íslenskt samfélag“, var spurning sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra velti m.a. upp í ávarpi sínu. Hann sagði að undirstaða allra samfélagsbreytinga sem fyrirsjáanlegar væru á næstu árum og rætt er um sem fjórðu iðnbyltinguna væri öflugt fjarskiptakerfi, góð tækniþekking og almenn þekking og menntun þjóðarinnar.
Sigurður Ingi sagði að þessi góði árangur sem Ísland hefði náð væri ekki kominn til af sjálfu sér, margir aðskildir þættir hefðu þar áhrif. Í því sambandi nefndi hann virka samkeppni og miklar fjárfestingar fjarskiptafyrirtækja sem skili Íslendingum sterkum fjarskiptainnviðum og greiðum aðgangi að háhraðatengingum við Internetið. Tölvueign og notkun almennings á tækninni hér á landi sé mikil í alþjóðlegu samhengi. Ráðherra nefndi einnig verkefnið Ísland ljóstengt og stefnu stjórnvalda til margra ára um að leggja áherslu á sem mest jafnræði landsmanna hvað varðar aðgang að fjarskiptainnviðum. Þarna skipti máli að sveitarfélögin hafi með beinum hætti tekið þátt í uppbyggingunni og einnig hafi framlag úr byggðasjóðum til uppbyggingar háhraðaneta hjálpað verst settu sveitarfélögunum.
Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi metnaðarfullrar stefnu og stuðnings ríkisins í þeim árangri sem náðst hefur. „Fjarskiptasjóður hefur til margra ára lagt til fé til að mæta kostnaði við uppbyggingu á þeim svæðum þar sem er markaðsbrestur. Þannig hefur náðst að koma háhraðatengingum til síðasta bæjarins í dalnum, ef svo má að orði komast.“ Hann nefndi einnig að árangurinn byggðist einnig á góðri almennri menntun en menntunarstig þjóðarinnar hafi verið að aukast jafnt og þétt.
Þá sagði Sigurður Ingi frá því að í ráðuneytinu væri hafin vinna við að að undirbúa nýja stefnu í fjarskiptum, póstmálum og netöryggismálum þar sem mótuð verði metnaðarfull framtíðarsýn, markmið og árangursmælikvarðar. „Í þessu verkefni verða hagsmunaaðilar að sjálfsögðu kallaðir að borðinu og óska ég hér með eftir víðtæku og góðu samstarfi um þetta mikilvæga verkefni.“
Helstu áskoranir í fjarskiptum
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, sagði margar áskoranir bíða okkar á næstunni varðandi þróun fjarskipta. „Eins og við þekkjum flest er fjórða iðnbyltingin hafin og er þegar farin að hafa áhrif víða í samfélaginu. Tækni hennar samanstendur af fjölmörgum þáttum þar sem hver og einn þeirra er svo afgerandi að hann getur umbylt tilteknu sviði (e. disruptive technologies). Má þar nefna gervigreind, mjög stór gagnasöfn (big data), BlockChain, gagnaver, 5G, ofurtölvur, og bráðlega skammtafræðitölvur, örtækni og svo má lengi telja. Það sem tengir þessa tækni saman og skapar sameiginlegan skriðþunga hinna mörgu tækniþátta í fjórðu iðnbyltingunni eru fjarskiptin,“ sagði hann og bætti við: „Fjarskiptin eru því ekki bara hluti fjórðu iðnbyltingarinnar, þau eru límið sem tengir hana saman. Án fjarskipta væri heildarskriðþungi þessara tækniþátta ekki sá breytingavaldur sem hann er og verður. Þróun fjarskipta er því lykilatriði um það hvernig þjóðfélögum tekst til um það að ná samkeppnisforskoti í fjórðu iðnbyltingunni. Því er sennilegt að hagþróun og þróun fjarskipta muni haldast í hendur næstu árin og áratugina.“
Hrafnkell sagði helsta tæki stjórnvalda til að móta markaði vera að setja regluverk sem leggur línurnar um leikreglur viðkomandi markaðar og starfrækja skilvirkt eftirlit til að tryggja að farið sé að leikreglunum. Í ljósi þess að Ísland sé á EES-svæðinu innleiðum við Íslendingar m.a. regluverk ESB um fjarskipti. Undanfarin ár hafi staðið yfir heildarendurskoðun alls regluverks ESB er lýtur að hinum stafræna markaði undir heitinu Digital Agenda for Europe. „Við sjáum þegar ýmsar afurðir þessarar vinnu, t.d. GDPR um almenna persónuvernd, Network and information security directive, NIS, um netöryggi, Cost reduction directive um hagkvæma uppbyggingu innviða og um nethlutleysi um hið opna og frjálsa Internet.“
Í erindi sínu ræddi Hrafnkell einnig m.a. um netöryggi, tíðnimál, fjarskiptainnviði, markaðsmódel og markaðsbrest. „Áskorun okkar um að ná árangri felst að mínu mati að mörgu leyti í því að hið opinbera og markaðsaðilar nái að vinna saman og spila úr þeim spilum sem við sannarlega höfum á hendi.“
Ísland áfram í fremstu röð
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri stýrði fundinum og pallborðsumræðum að honum loknum. Hún tók saman helstu punkta úr erindum og umræðum og sagði verkefnið fram undan að tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð. „Krefjandi verkefni bíða okkar,“ sagði hún og benti í því sambandi á að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið undirbúi nú nýja framtíðarsýn og markmið í málaflokkum ráðuneytisins. „Von mín er sú að við förum héðan með hugmyndir, innblástur og kraft sem við nýtum til að móta framtíð fjarskiptanna.“
Sjá einnig:
- Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
- Erindi Hrafnkels V. Gíslasonar, forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar
- Skýrsla Alþjóðafjarskiptasambandsins, Measuring the Information Society Report 2017
Svipmyndir frá fundinum:
Ljósmyndari BIG