Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2018 Innviðaráðuneytið

Áfangaskýrsla vegna flutninga á hergögnum með íslenskum loftförum 2008-2017

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í dag áfangaskýrslu vegna könnunar á flutningi á hergögnum með borgaralegum loftförum en sú vinna var gerð að beiðni forsætisráðherra.

Annars vegar er um að ræða undanþágur til handa flugrekendum, hvar sem þeir eru skráðir í heiminum, vegna flutninga um íslenskt yfirráðasvæði og hins vegar undanþágur sem veittar hafa verið vegna flutninga íslenskra flugrekenda erlendis. Greiningin nær ekki til viðkomu eða yfirflugs svokallaðra ríkisfara en heimildir til handa slíkum loftförum hafa verið veittar af utanríkisráðuneytinu. Afmarkast þessi könnun því við flutninga með borgaralegum loftförum.

Könnun ráðuneytisins fólst í því að farmskrár og önnur gögn voru greind ítarlega og búnaður flokkaður eftir notkun og magni. Jafnframt voru skráðar aðrar upplýsingar og þau atriði sem snertu viðkomandi heimild til að taka saman heildstætt yfirlit yfir bæði þann búnað sem fluttur var, uppruna- og áfangastaði og dagsetningar. Var þessi könnun framkvæmd með fulltingi sérfræðings frá Landhelgisgæslu Íslands.

Niðurstöður þessarar könnunar koma fram í meðfylgjandi áfangaskýrslu sem nær til  undanþága sem veittar hafa verið vegna flutninga íslenskra flugrekenda. Helstu niðurstöður eru þær að engar vísbendingar séu um íslenskir flugrekendur hafi flutt jarðsprengjur eða að flutningar hergagna með íslenskum loftförum hafi verið í andstöðu við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

Lokaskýrslu, sem nær jafnframt yfir flutninga um íslenskt yfirráðasvæði, er að vænta fyrir lok þessa mánaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta