Áfram áskoranir í loftslagsmálum
Losun gróðurhúsalofttegunda dróst saman um 2% frá 2015 til 2016. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report) til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Enn eru þó miklar áskoranir framundan þar sem töluverð aukning hefur verið á losun Íslands frá viðmiðunarárinu 1990.
Árið 2016 var losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem bókfærð er innan skuldbindinga Kýótó-bókunarinnar 4.669 kílótonn af CO2-ígildum, sem er samdráttur um tæplega 2% frá árinu 2015, en aukning um rúmlega 28% frá árinu 1990, sem er viðmiðunarár bókunarinnar. Losun Íslands árið 2016 að meðtalinni landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt jókst um 8,5% frá 1990 til 2016 (úr 13.727 í 14.893 kt.CO2-ígildi).
Megin ástæður samdráttar í losun milli 2015 og 2016 er minni losun frá fiskiskipum, álframleiðslu og kælimiðlum. Þá hefur niðurdæling CO2 frá jarðvarmavirkjunum einnig leitt til minni losunar út í andrúmsloftið. Hins vegar er veruleg aukning á losun frá vegasamgöngum á milli ára, eða um 9% og einnig frá vélum og tækjum, um 12%.
Sjá nánari upplýsingar í frétt Umhverfisstofnunar
Skýrsla Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda - National Inventory Report (pdf-skjal)