Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Mikilvægt menningarsamstarf ráðuneyta

Ráðuneyti mennta- og menningarmála og utanríkisráðuneytið hafa gert með sér samkomulag um að móta sameiginlega stefnu um áherslur og framkvæmd alþjóðlegs menningarsamstarfs. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skrifuðu undir samkomulag þess efnis á dögunum.

„Listamennirnir okkar eru mikilvægir sendiherrar Íslands út á við og starf kynningarmiðstöðva, sendiráða og annarra sem vinna að því að kynna íslenska menningu á erlendri grundu hefur skilað miklum árangri. Íslenskri sköpun er miðlað um allan heim og meðvitund okkar um efnahagslega þýðingu hennar er sífellt að aukast. Aukið samstarf við utanríkisráðuneytið er okkur dýrmætt til að stilla saman strengi og tryggja í sameiningu að íslensk menning megi ferðast sem víðast,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

„Lögum samkvæmt er það eitt meginhlutverk utanríkisráðuneytisins að standa vörð um menningarhagsmuni Íslands erlendis. Í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar sem nýverið kom út er m.a. gerð tillaga um að utanríkisþjónustan auki samráð við útflutningsfyrirtæki, kynningarmiðstöðvar, fagráðuneyti og Íslandsstofu um stefnumótun og aðgerðaáætlun, þ.m.t. ráðgjöf, hvað varðar átak í markaðssetningu og útflutningi menningarafurða. Samkomulagið sem við ráðherrarnir undirrituðum og fundur með forystufólki kynningarmiðstöðvanna er mikilvægt fyrsta skref í þeirri framkvæmd,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Kraftmikið menningarlíf og listsköpun íslenskra listamanna er mikilvægur liður í aðdráttarafli Íslands, jákvæðu orðspori, auk þess að vera hratt vaxandi liður í útflutningi landsins. Mikil og vaxandi alþjóðleg eftirspurn er eftir samstarfi við Ísland á þessu sviði. Kynningarmiðstöðvar listgreina gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að efla og skapa sóknarfæri fyrir íslenska listamenn erlendis. Eitt af hlutverkum miðstöðvanna og sendiráðanna er að tryggja markvisst kynningar- og markaðsstarf sem miðar að því að auka gjaldeyristekjur lista og skapandi greina. Að þessu málum starfa m.a. Kvikmyndamiðstöð Íslands, Miðstöð íslenskra bókmennta, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Hönnunarmiðstöð Íslands, Sviðslistasamband Íslands og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar og voru fulltrúar þeirra viðstaddir undirritunina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta