Tillaga um breytingu á verkaskiptingu er varða hergagnaflutninga kynnt ríkisstjórn
Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og utanríkisráðuneytið, í samráði við forsætisráðuneytið, hafa á undanförnum mánuðum unnið að því að endurskoða verkferla við veitingu leyfa vegna hergagnaflutninga.
Ástæðan fyrir þessum breytingum á verkaskiptingu er sú að það mat sem fram fer við leyfisveitingar skv. 1. mgr. 78. gr. loftferðalaga snýr ekki að flugöryggi heldur fyrst og fremst að alþjóðlegum skuldbindingum og stefnu Íslands í alþjóðlegum öryggis- og varnarmálum, sem og mannúðar- og mannréttindamálum. Þessir málaflokkar heyra undir utanríkisráðuneytið og nauðsynleg sérþekking er því til staðar í því ráðuneyti. Sömu sjónarmið eiga við um 5. mgr. 78. gr. loftferðalaga, varðandi flutning annars varnings en hergagna til að halda uppi allsherjarreglu og öryggi.