Ráðherra ræddi Sýrland og Jemen á allsherjarþingi SÞ
Staða mála í Sýrlandi og Jemen og ábyrgð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var á meðal þess sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gerði að umtalsefni í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.
„Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ber að tryggja frið, en er fyrirmunað að taka á aðkallandi málum. Öryggisráðið verður að gera betur og axla ábyrgð – þúsundir mannslífa eru í húfi,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni.
Þá ræddi ráðherra mikilvægi þess að ráðast að rótum vandans og að Sameinuðu þjóðirnar legðu aukna áherslu á að koma í veg fyrir átök.
„Það er til lítils að slökkva eldinn ef upptök hans eru ennþá fyrir hendi. Þá mun kvikna bál að nýju. Að ráðast að upptökum eldsins er skilvirkara, ódýrara og bjargar fleiri mannslífum,“ sagði Guðlaugur Þór ennfremur og beindi að lokum orðum sínum að aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. „Sameinuðu þjóðirnar eru aldrei sterkari en aðildarríkin leyfa. Við, aðildarríkin, verðum að stíga upp og styðja við Sameinuðu þjóðirnar og störf framkvæmdastjórans,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.
Þá átti utanríkisráðherra fund með Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, þar sem þróun mála í Evrópu, framkvæmd EES samningsins og Brexit voru meðal umræðuefna.