Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga heimsækir Austurland
Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur undanfarna daga verið á ferð um Austurland. Sveitarfélögin sem nefndin heimsótti að þessu sinni voru Sveitarfélagið Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Sveitarfélagið Fjarðabyggð og Breiðdalshreppur.
Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um stöðu og málefni sveitarfélaga á svæðinu og helstu verkefni sem eru í gangi. Skipulagðir voru fundir með sveitarstjórnarfólki og starfsfólki sveitarfélaganna, auk þess sem farið var í vettvangsferðir. Þá fundaði ráðgjafarnefndin einnig með fulltrúum sex sveitarfélaga sem nýlega hafa staðið fyrir könnun á meðal íbúa um viðhorf til sameiningar sveitarfélaganna og samstarfs. Um er að ræða Sveitarfélagið Fljótsdalshérað, Vopnafjarðarhrepp, Borgarfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað, Fljótsdalshrepp og Djúpavogshrepp.
„Það er mjög ánægjulegt að sjá kraftinn í sveitarstjórnarfólki hérna á Austurlandi og hvað það er mikið í gangi á öllum þeim stöðum sem við heimsóttum,“ segir Guðný Sverrisdóttir, sem er formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. „Auðvitað er verið að glíma við margskonar áskoranir og erfiðleika eins og gengur, en alls staðar er sóknarhugur og mörg spennandi verkefni í gangi. Þá er sveitarstjórnarfólk að ræða sameiningarkosti og það er vel, en við kynntum okkur vel framtíðarsýn í nýsameinuðu sveitarfélagi Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. Það lítur allt ljómandi vel út.“
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er einn af megintekjustofnum sveitarfélaga, en um 14% af skatttekjum sveitarfélaga kemur frá sjóðnum. Til Austurlands runnu alls 3,5 milljarðar króna úr Jöfnunarsjóði á síðasta ári.
Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs er skipuð til fjögurra ára að afloknum sveitarstjórnarkosningum.