Uppbygging hjúkrunarrýma, áskoranir og nýsköpun í öldrunarþjónustu
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í dag áætlanir um stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu. Kynningin var haldin í Höfða við upphaf þriggja daga nýsköpunarvinnustofu um áskoranir í öldrunarþjónustu sem haldin er í samvinnu velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til þátttöku og samráðs á vinnustofunni voru boðaðir fulltrúar Landssambands eldri borgara, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Alzheimersamtakanna.
Framkvæmdir fyrir um 10,5 milljarða króna
Áætlunin sem ráðherra kynnti nær til ársins 2023. Í kynningunni er dregið fram hvernig auknir fjármunir til uppbyggingar og reksturs hjúkrunarrýma samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2019 – 2023 gera kleift að ráðast í framkvæmdir við rúmlega 300 hjúkrunarrými, til viðbótar við þau byggingaráform sem áður hafa verið kynnt. Áætlaður byggingakostnaður við eitt hjúkrunarrými nemur um 36,5 milljónum króna. Heildarkostnaður vegna framkvæmda við þessi rúm 300 hjúkrunarrými nemur því um 10,5 milljörðum króna. Þar af er hlutur ríkisins tæplega níu milljarðar króna.
Uppbygging og endurbætur – tæplega 800 hjúkrunarrými
Yfirstandandi og áformaðar framkvæmdir við uppbyggingu hjúkrunarrýma, að meðtöldum þeim áformum sem heilbrigðisráðherra kynnti í dag, taka til uppbyggingar og endurbóta á um 790 hjúkrunarrýmum samtals til ársins 2023.
Fjölgun – 550 rými: Þótt áformaðar framkvæmdir taki til uppbyggingar 790 hjúkrunarrýma fjölgar rýmum ekki sem því nemur þar sem hluti uppbyggingarinnar er vegna endurbóta. Fjölgunin er þó veruleg og nemur samtals 550 hjúkrunarrýmum.
Bættur aðbúnaður – 240 rými: Hluti uppbyggingarinnar felst í endurbótum á eldra húsnæði, eða nýframkvæmdum á móti úreldingu á eldra húsnæði. Þetta á við um samtals 240 hjúkrunarrými sem leiða því ekki til aukins framboðs á hjúkrunarrýmum, heldur stórbæta aðbúnað og aðstöðu í samræmi við þarfir og kröfur nútímans.
Mikilvæg uppbygging með víðtæk áhrif
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir margt hafa kallað á ákvörðun um að blása til sóknar í uppbyggingu hjúkrunarrýma og að ákvörðunin muni hafa margvísleg jákvæð áhrif: „Þegar hjúkrunarrýmum fjölgar hefur það áhrif á lífsgæði aldraðra sem eru á biðlistum eftir slíkum rýmum, oft við erfiðar og ófullnægjandi aðstæður. þetta styrkir stöðu Landspítalans til að sinna sérhæfðri heilbrigðisþjónustu þar sem útskriftir sjúklinga ganga greiðar fyrir sig og aukið svigrúm skapast hjá heilsugæslu og sveitarfélögum til að sinna betur þjónustu við aldraða sem sannarlega geta verið heima með góðum stuðningi.“
Efla þarf þjónustu sem styður sjálfstæða búsetu aldraðra og stuðla að nýsköpun í því skyni
Að lokinni kynningu heilbrigðisráðherra fjallaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða fyrir aldraða í borginni og um öldrunarþjónustu til framtíðar. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans og staðgengill forstjóra sjúkrahússins ræddi að því búnu um helstu áskoranir Landspítalans og um nauðsyn víðtæks samráðs um öldrunarþjónustu. Landspítalinn átti frumkvæði að því að efna til nýsköpunarvinnustofu um áskoranir í öldrunarþjónustu sem nú stendur yfir í samvinnu Landspítalans, Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytisins. „Ég bind vonir við að þessi vinnustofa kveiki nýjar hugmyndir um verkefni, samstarf, leiðir og lausnir sem efla og bæta þjónustu við aldraða, ekki síst til að styrkja raunhæfa möguleika og getu eldra fólks til að búa sem lengst heima, þrátt fyrir heilsubrest og skerta getu“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.