Fjölmenn rakararastofuráðstefna undir forystu Íslands og Danmerkur á Evrópuráðsþinginu í gær
Ísland og Danmörk stóðu að fjölmennum rakarastofuviðburði fyrir Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið í gær. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra opnaði viðburðinn og tók þátt í pallborðsumræðum um kynjamismunun á opinberum vettvangi ásamt Arnold Skribsted fastafulltrúa Danmerkur hjá Evrópuráðinu, Thorbjørn Jagland aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni og varaforseta Evrópuráðsþingsins.
Ásmundur Einar sagði í ræðu sinni frá hugmyndum og verkefnum sem miða að því að auka þátttöku karla í öllu jafnréttisstarfi sem fela m.a. í sér að uppræta staðlaðar hugmyndir um stöðu og hlutverk kynjanna. Hann sagði jafnframt frá íslenska feðraorlofinu og jákvæðum áhrifum orlofstöku karla og jákvæðum viðbrögðum ungra karlmanna við #Ég líka hreyfingunni sem komu af stað herferðinni um ábyrgð karla á aðgerðum gegn kynbundu ofbeldi og kynferðislegri áreitni undir myllumerkinu #karlmennska.
Íslensk stjórnvöld eru þátttakendur í verkefni UN Women um HeforShe og hafa á alþjóðavettvangi tekið forystu hvað varðar verkefni um karla og jafnrétti undir yfirskriftinni Barbershop. Markmið verkefnisins er að standa fyrir svokölluðum rakarastofuráðstefnum sem fjalla um mismunandi þætti jafnréttismála á vettvangi allra alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að til að virkja karla í baráttunni fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Ísland leiðir einnig verkefni fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar um þrjár ráðstefnur á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð og hefur jafnframt staðið fyrir viðburðum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og Genf, hjá NATO og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Viðburðina sækja karlar og konur í áhrifastöðum sem geta haft áhrif á ákvarðanir og breytingar á stefnumótun á sviði alþjóðamála en þar hallar enn mjög á konur hvað varðar völd og áhrif og einnig hvað varðar samþættingu jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og því þarf að breyta.
Ásmundur Einar átti einnig í gær fund með Snezana Samardzic-Markovic, framkvæmdastjóra málefnasviðs lýðræðis- og réttindamála, hjá Evrópuráðinu. Framkvæmdastjórinn vék í máli sínu sérstaklega að forystuhlutverki Íslands á sviði jafnréttismála og þakkaði fyrir framlag fulltrúa íslenskra stjórnvalda við mótun og samþykkt nýrrar jafnréttisáætlunar Evrópuráðsins fyrir árin 2018–2023 sem samþykkt var fyrir skömmu í ráðherraráðinu. Einnig var rætt um framlag Íslands við mótun aðgerðaráætlunar Evrópuráðsins um stöðu og rétt fylgdarlausa barna og að verkefni Íslands um Barnahús væri fyrirmynd um hvernig tryggja megi réttarstöðu barna í kynferðisafbrotamálum. Samardzic-Markovic óskaði eftir áframhaldandi stuðningi íslenskra stjórnvalda við aðildarríki Evrópuráðsins sem hafa áhuga á að læra af verkefninu og jafnvel að koma sér upp Barnahúsi að íslenskri fyrirmynd.