Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslu á landsbyggðinni
Heildstæð heilbrigðisstefna er forsenda árangursríkrar heilsugæslu á landsbyggðinni og þess að hægt sé að endurbæta fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar. Því er brýnt að heilbrigðisráðherra leggi fram slíka stefnu. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar Heilsugæsla á landsbyggðinni.
Í skýrslunni segir að heilsugæslan á landsbyggðinni glími m.a. við læknaskort, ófullnægjandi aðgengi að læknisþjónustu á dagtíma og víðfeðm heilbrigðisumdæmi. Til að bregðast við þessu telji Ríkisendurskoðun mikilvægt að tekin verði upp teymisvinna, þar sem aðrar heilbrigðisstéttir en læknar verði valdefldar og aukin áhersla verði lögð á fjarheilbrigðisþjónustu og fjárfestingu í slíkum búnaði. Einnig sé mikilvægt að velferðarráðuneyti beiti sér fyrir því að vaktsvæði heilsugæslunnar verði endurskoðuð á grunni faglegs mats.
Auk ábendinga Ríkisendurskoðunar eru í skýrslunni rakin viðbrögð velferðarráðuneytisins við þeim. Þar kemur m.a. fram að heilbrigðisráðherra vinnur nú að heildstæðri heilbrigðisstefnu þar sem lögð er áhersla á jafnræði landsmanna varðandi aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Einnig að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður og að þar sé veitt heildstæð og samfelld þjónusta með þeim mannafla sem skilgreint verður að best sé til þess fallinn að veita þjónustuna.