Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Landspítali í sókn

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Grein Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birt í Morgunblaðinu 30. apríl 2018

Í síðastliðinni viku var útboð jarðvinnu við nýjan meðferðarkjarna auglýst, en meðferðarkjarninn er hluti uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut.

Jarðvegsvinna og framkvæmdir við meðferðarkjarnann hefjast svo í sumar, en kjarninn er stærsta bygging Landspítalaverkefnisins. Í meðferðarkjarna verða meðal annars bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur, hjartaþræðing, gjörgæslur, apótek, dauðhreinsun og um 210 legurými, sem öll verða einbýli. Ljóst er að meðferðarkjarninn mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir sjúklinga, starfsfólk, aðstandendur og starfsemi sjúkrahússins í heild. Hann er því stór og mikilvægur áfangi í uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins okkar.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er gert ráð fyrir tæplega 75 milljarða króna fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu. Stærstur hluti þess fjármagns rennur til uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut, en meginþungi framkvæmda við nýjan spítala við Hringbraut mun fara fram á árunum 2020-2023. Gangi áætlanir eftir lýkur byggingu spítalans svo árið 2024. Fullnaðarhönnun við byggingarnar stendur nú yfir og við þá vinnu hefur aðferðafræði notendastuddrar hönnunar verið nýtt. Það þýðir að hagsmunaaðilar og þeir sem koma munu að þjónustunni taka virkan þátt í hönnunarferlinu.

Við uppbyggingu nýs Landspítala er einnig lögð áhersla á  þarfir nemenda í heilbrigðisvísindadeildum og öll hönnun bygginganna er miðuð við þær þarfir. Sú áhersla í hönnun, auk nálægðrar spítalans við Háskóla Íslands og þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir miklu máli vegna rannsóknar og kennslu, og rímar vel við áherslu mína á aukið vísindastarf innan heilbrigðiskerfisins.

Nýlega skipaði ég samstarfsráð til að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut, efla samráð og miðlun upplýsinga þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki sem best mið af áherslum þeirra sem tengjast verkefninu. Samstarfsráðið mun starfa á vegum velferðarráðuneytisins og vera mér til samráðs og ráðgjafar meðan á uppbyggingunni stendur. Ég er viss um það að með samstarfsráðinu gefst tækifæri til að tryggja betri skilning aðila á verkefnunum á framkvæmdatímanum, stilla saman strengi og draga fram hugmyndir að lausnum á þeim verkefnum sem framundan eru.

Framkvæmdir við meðferðarkjarnann eru því gleðitíðindi. Ég er sannfærð um það að uppbygging við Hringbraut verður mikið heillaskref fyrir Landspítalann og að Landspítalaverkefnið mun hafa jákvæð áhrif á heilbrigðisþjónustu í landinu öllu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta