Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, stýrir óháðri úttekt á málum á sviði barnaverndar
Að tillögu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hefur verið ákveðið að fram fari óháð úttekt á tilteknum málum á sviði barnaverndar hér á landi, sem verið hafa til umfjöllunar í velferðarráðuneytinu og hjá velferðarnefnd Alþingis.
Úttektin er unnin að ósk Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra. Í úttektinni verði farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis. Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, mun annast verkefnið ásamt Kristínu Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Niðurstaða úttektarinnar mun liggja fyrir í byrjun júní. Henni verður skilað til ríkisstjórnar og í kjölfarið birt opinberlega.