Hjólum í vinnuna
Heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, Hjólað í vinnuna hófst í gær og var formlega sett í Laugardalnum að viðstöddu hjólafólki úr ýmsum áttum. Meginmarkmið verkefnisins er að vekja athygli heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgönguleiðum og eru þátttakendur hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta annan virkan ferðamáta til og frá vinnu. Höfðað er til starfsmanna á vinnustöðum landsins og hefur þátttakan margfaldast á þeim fimmtán árum sem liðin eru frá því að verkefnið fór af stað.
„Það er mjög hressandi að byrja daginn einmitt svona,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra þegar hún hjólaði af stað, „þessi árvissa hvatning um að við hvílum bílana og hreyfum okkur heldur hefur sannarlega skilað góðum árangri. Við sjáum að það skapast virkilega skemmtileg stemmning á vinnustöðum kringum þetta verkefni og svo tala tölurnar sínu máli – bæði fjöldi þátttakenda og kílómetrarnir sem farnir eru. Ég hvet alla til að taka þátt.“
Keppt er í fjölda þátttökudaga en lið geta jafnframt skráð sig í kílómetrakeppnina þar sem keppt er um heildarfjölda kílómetra. Nánar má fræðast um verkefnið á heimasíðu þess.