Drög að reglugerð um leyfi til rekstrar báta í farþegaflutningum til umsagnar
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt til umsagnar í samráðsgátt drög að nýrri reglugerð um leyfi til rekstrar báta í farþegaflutningum. Þar er m.a. brugðist við tillögum rannsóknarnefndar samgönguslysa um aukið öryggi vegna slysa sem orðið hafa um borð í harðbotna slöngubátum (RIB). Umsagnarfrestur er til og með 25. maí nk.
Undanfarin ár hafa orðið alvarleg slys um borð í slíkum bátum. Í flestum tilfellum sem Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) hefur rannsakað hefur bátunum verið siglt á nokkurri ferð, þeir lyfst upp vegna öldugangs og skollið niður af nokkrum þunga með þeim afleiðingum að orðið hafa alvarleg slys á fólki. Nefndin beindi þeirri tillögu í öryggisátt til ráðuneytisins að settar yrðu reglur um slíka báta til að tryggja betur öryggi farþega. Lagði hún til að sett yrðu í bátana fjaðrandi sæti sem myndu taka á sig mesta höggið. Ráðuneytið óskaði umsagnar Samgöngustofu um tillöguna en stofnunin taldi ekki fært að gera tillögu um fjaðrandi sæti vegna tæknilegra vandkvæða. Í staðinn lagði Samgöngustofa til að kröfur um framkvæmd áhættumats yrðu útfærðar og tækju til siglinga í mismunandi aðstæðum. Ráðuneytið fól Samgöngustofu að útfæra slíkar reglur.
Í reglugerðardrögunum er lagt til að útgerðir farþegabáta hafi öryggisstjórnunarkerfi sem þurfi samþykki og úttekt Samgöngustofu og yrði starfsleyfi þeirra háð því kerfi. Þannig er ábyrgð útgerðar á eigin starfsemi gerð skýrari. Ákvæði um öryggisstjórnunarkerfi er helsta nýjungin sem mælt er fyrir um í reglugerðinni en það er jafnframt afar mikilvægur liður í að færa reglur um rekstrarumhverfi farþegabáta í þá mynd sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.