Forgangsmál fyrir hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun lista yfir þau mál sem eru í undirbúningi á vettvangi Evrópusambandsins og íslensk stjórnvöld ætla að vakta sérstaklega. Er þetta í annað sinn sem slíkur forgangslisti er samþykktur.
Á listanum nú eru 25 mál af ýmsum toga. Má þar nefna matvælaöryggi, orkumál, loftslagsmál, jafnréttismál og vinnumarkaðsmál. Fyrir hvert mál má finna lýsingu á því hvar málið er statt og hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar til að gæta hagsmuna Íslands. Listinn var unninn í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila. Hér er yfirleitt um að ræða mál þar sem Evrópulöggjöf er í undirbúningi og sem síðar verður tekin upp í EES-samninginn. Listinn tekur mið af mikilvægi mála og getu stjórnkerfisins til að fylgjast með málum.
Sendiráð Íslands í Brussel og sérfræðingar í ráðuneytum og stofnunum hér á landi munu fylgja því eftir að hagsmuna Íslands sé gætt varðandi þau mál sem eru á listanum. Að baki forgangsröðun af þessu tagi býr sú hugsun að nauðsynlegt sé að sinna hagsmunagæslu skipulega í gegnum allt ferli EES-mála, frá því umræður hefjast á vettvangi Evrópusambandsins og þar til gerð er tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi.
Frekari upplýsingar má finna á vef utanríkisráðuneytisins um EES mál - EES-samningurinn