„Láttu þér líða vel“
Dugnaðarforkur Heimilis og skóla var einnig útnefndur í gær en þann titil hlaut Birgitta Bára Hassenstein sem hefur verið formaður SAMFOK, samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, í fjögur ár og þar áður sat hún í stjórn samtakanna. „Birgitta Bára brennur fyrir málefnum og réttindum barna í grunnskólum og er leitun að annarri eins ástríðu og dugnaði,“ segir í tilnefningu. Hún er áheyrnarfulltrúi foreldra í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur og hefur setið í fjölmörgum starfshópum sem fjalla um málefni grunnskólans, allt í sjálfboðavinnu. Hún hefur staðið fyrir fjöldamörgum öflugum verkefnum og nú síðast var hún hugmyndasmiður og driffjöður í verkefninu „Allir með – tölum um skólamenningu á Íslandi“ sem unnið var í samstarfi SAMFOK og Móðurmáls – samtaka um tvítyngi. Verkefnið gengur út á að virkja foreldra barna af erlendum uppruna í foreldrastarfi. Það verkefni hlaut sérstök Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2018 en í tengslum við verkefnið voru haldin 10 málþing um skólamál á Íslandi á tíu tungumálum.
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru nú afhent í 23. sinn og afhenti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, verðlaunin ásamt Önnu Margréti Sigurðardóttur, formanni Heimilis og skóla. Hún nefndi í ávarpi sínu að íslenskt skólakerfi stæði nú frammi fyrir ýmsum áskorunum en öflugt skólasamfélag og ekki síst foreldrar væru mikilvægir bandamenn í þeirri umbótavinnu sem framundan er.