Hoppa yfir valmynd
17. maí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Áherslur heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítala

Svandís Svavarsdóttir á ársfundi Landspítala 2018 - myndMynd: Landspítali

Landspítalinn er ekki eyland, heldur miklu fremur meginland og hluti af mikilvægri heild sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítalans í gær. Hún ræddi m.a. um margþætt hlutverk spítalans og hvernig skoða verði alla þætti heilbrigðiskerfisins í samhengi og taka ákvarðanir í samræmi við það. Landspítali í sókn og vörn var yfirskrift ársfundarins.

Í ræðu sinni talaði Svandís um þá vinnu sem stendur yfir við gerð heilbrigðisstefnu með hliðsjón af þörfum allra landsmanna, þar sem skilgreind verða betur hlutverk einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Hún sagðist stefna að því að gera áherslur þeirrar stefnumótunarvinnu að umfjöllunarefni á heilbrigðisþingi sem haldið verði í október og leggja heilbrigðisstefnuna sjálfa fyrir á vorþingi næsta árs, eða haustið 2019.

Ráðherra vék einnig að stefnumótun og innra starfi Landspítalans þar sem hún sagði mikilvægt að allar fagstéttir sem þar starfa hefðu rödd og fengju tækifæri til þess að taka þátt. Mikilvægt væri að nýta sem best fagþekkingu allra starfsmanna og innleiða teymishugsun og teymisvinnu. Svandís sagði þetta tengjast þeirri miklu vinnu sem átt hafi sér stað að undanförnu við að skilgreina betur hver er best til þess fallinn að veita tiltekna þjónustu: „Ég vil við þetta tækifæri þakka Landspítalanum þeirra stóra þátt í sameiginlegri faglegri vinnu og niðurstöðu um það hvernig sérgreinalæknaþjónustu við íbúa um allt land verði best fyrir komið og þau skref sem spítalinn er þegar farinn að taka með stuðningi ráðuneytisins til að unnt verði byggja upp mun öflugri göngudeildarþjónustu á Landspítalanum. Gagnvart Landspítalanum er það mjög mikilvægt að grunnþjónustan, heilsugæslan, heilbrigðisstofnanirnar og sérfræðiþjónustan þjóni hlutverki sínu sem best og það skiptir líka miklu máli fyrir sjúklingana að fá þjónustu á viðeigandi og réttu þjónustustigi.

Það þarf að vera ljóst í hverju sérstaða Landspítalans á að fel­ast og hvernig við stöndum vörð um hlutverk hans sem sérhæft háskólasjúkrahús. Það verður að vera ljóst til hvers er ætlast af heilbrigðisstofnununum í öllum umdæmum landsins og hvaða kröfur er hægt að gera til þjónust­unnar á hverjum stað“ sagði Svandís Svavarsdóttir meðal annars í ræðu sinni.

 

Forstjóri Landspítalans ræddi um sóknar- og varnarsigra

Páll Matthíasson, Svandís Svavarsdóttir og Iðunn GarðarsdóttirPáll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sem talaði á eftir Svandísi, þakkaði henni hlý orð í garð spítalans. Hann sagði ljóst að væntingar og stuðingur stjórnvalda væri mikill og skýr sýn á mikilvægi spítalans sem hornsteins í íslensku heilbrigðiskerfi. Því fylgdu tækifæri, en einnig kröfur sem spítalinn þyrfti að standa undir. Páll sagði ýmsa sigra, stóra og smáa, hafa unnist í starfi Landspítalans á liðnu ári, hann fjallaði um sókn spítalans í vísindalegri þekkingaröflun og benti á hvernig sótt væri fram í uppbyggingu, umbótum og þjónustu á sama tíma og spítalinn verðist ógnunum og áskorunum sem blasa við heilbrigðisþjónustunni á Íslandi, líkt og úti um allan heim. Páll sagði ekki ofsögum sagt að ýmislegt gangi afar vel í starfi Landspítala og ástæða væri til að hampa því við öll tækifæri: ,,...því allt slíkt er afrakstur gríðarlega öflugs starfsfólks sem oft vinnur við afar erfiðar aðstæður og auðvitað veltir maður fyrir sér hversu mikils við værum megnug við bestu aðstæður. Þess vegna fögnum við því að til lands sér á mörgum vígstöðvum hvað það varðar. Stuðningur við aukna göngudeildarþjónustu, sókn í húsnæðismálum spítalans og áframhaldandi stuðningur við Hringbrautarverkefnið, bætt samráð um öldrunarþjónustu, skýrari staða heilsugæslunnar, nánara samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir um að veita sérfræðiþjónustu út um landið og nánara samstarf við aðra þætti velferðarþjónustunnar, já heildarssýn á heilbrigðisþjónustuna - allt eru þetta merki betri tíma framundan."

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta