Embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands laust til umsóknar
Velferðarráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Heilbrigðisráðherra skipar í stöðuna frá 1. nóvember 2018 til fimm ára að fenginni tillögu stjórnar Sjúkratrygginga Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands starfa samkvæmt lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008, með síðari breytingum. Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd sjúkratrygginga, semja um og greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu.
Forstjóri ber ábyrgð á því að Sjúkratryggingar Íslands starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
- Menntunar- og hæfniskröfur:
- Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
- Farsæl reynsla af stjórnun og áætlanagerð.
- Haldbær reynsla af fjármálum, uppgjöri og rekstri.
- Reynsla eða þekking á mannauðsmálum.
- Reynsla eða þekking á heilbrigðismálum.
- Skipulag, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
- Jákvæðni og hæfni í mannlegum samskiptum.
- Leiðtogahæfileikar.
- Skýr sýn um þróun heilbrigðisþjónustunnar og á hlutverki Sjúkratrygginga Íslands innan hennar.
Um kjör forstjóra fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs þar til ný ákvörðun hefur verið tekin um laun og starfskjör skv. 39. gr. a. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.
Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri, [email protected]. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil, ásamt rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í embættið, skulu berast velferðarráðuneytinu, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík eða á netfangið: [email protected] eigi síðar en 10. júní nk.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið hefur verið tekin.