Gagnlegur fundur EES-ráðsins með Barnier
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ítrekaði mikilvægi farsællar niðurstöðu Brexit-viðræðna á fundi með aðalsamningamanni Evrópusambandsins í Brussel í dag. Guðlaugur Þór stýrði fundi EES-ráðsins í Brussel fyrir hönd ríkjanna EFTA-ríkjanna þriggja sem eru aðilar að EES-samningnum. Á fundinum báru tveggja stoða kerfi EES og málefni Brexit hæst.
Utanríkisráðherra lýsti á fundinum hve mikilvægt EES-samstarfið hefði reynst ríkjunum þremur á þeim aldafjórðungi sem liðinn væri frá gildistöku samningsins. Um leið lagði hann áherslu á að á þeim viðsjárverðum tímum sem nú væru uppi í fríverslun í heiminum væri brýnt að aðildarríki EES stæðu vörð um þetta samstarf. Að undanförnu hefðu komið fram áskoranir í tengslum við svokallað tveggja stoða kerfi EES-samningsins, grundvallarforsendu samstarfsins, þegar valdheimildir væru færðar frá aðildarríkjum ESB til stofnana sambandsins.
„Upp á síðkastið hefur orðið æ erfiðara að finna lausnir sem grundvallast á tveggja stoða kerfi EES-samningsins þegar slíkar valdheimildir eru færðar í samninginn,“ sagði Guðlaugur Þór. Þessi þróun samræmist illa stjórnarskrám Íslands og annarra EES-EFTA ríkja. „Þróunin undanfarin misseri hefur valdið óróa og það eru áhöld um hversu langt Ísland getur gengið í að fallast á lausnir sem vega að tveggja stoða kerfinu,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra stýrði fundi EES-ráðsins. Mynd: EFTA
Á EES-ráðsfundinum var enn fremur farið yfir stöðu ýmissa mála sem eru á borði EES-ríkjanna, þar á meðal málefni tengd útgöngu Breta úr ESB, framlög EES-EFTA ríkjanna til innviðauppbyggingar í nýjustu aðildarríkjum ESB sem og persónuverndarlöggjöfina sem tekur gildi á EES-svæðinu innan skamms.
Efnt var til sérstakra umræðna um stöðuna í samningaviðræðum Breta og Evrópusambandsins á lokuðum fundi utanríkisráðherra EES-EFTA ríkjanna með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins. Þar lagði Guðlaugur Þór áherslu á hve brýnt væri að ná fram farsælli niðurstöðu, bæði hvað varðar sjálfan viðskilnaðinn sem og framtíðarfyrirkomulag viðskipta ESB og Bretlands eftir útgönguna. Lýsti utanríkisráðherra því góða samstarfi sem EES-EFTA ríkin ættu við Breta um útfærslu bráðabirgðatímabilsins sem hefst eftir útgöngu þeirra í mars og þeim ríku hagsmunum sem væru í húfi, ekki síst hvað varðar réttindi borgara EES-EFTA ríkjanna.
„Þetta var afar gagnlegur fundur og mikilvæg skoðanaskipti við Barnier og hans fólk,“ sagði utanríkisráðherra að fundi loknum. „Brexit er mjög stórt mál og framkvæmdastjórn ESB er fyllilega meðvituð um hvað er í húfi fyrir Ísland og hin EFTA-ríkin á næstu misserum. Við upplýstum Barnier um þá miklu vinnu sem væri í gangi í okkar stjórnsýslu og ég lagði áherslu á að Ísland væri lausnamiðað í þeirri flóknu vinnu sem framundan er,“ sagði ráðherra.
Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtehstein, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB og Emil Karanikolov, efnahagsmálaráðherra Búlgaríu.
Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra tóku þær Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtehstein, þátt í fundinum. Emil Karanikolov, efnahagsmálaráðherra Búlgaríu, sem nú fer með formennsku í ráðherraráði ESB, var fulltrúi ESB, auk embættismanna utanríkisþjónustu ESB (EEAS).