Hoppa yfir valmynd
7. júní 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Óskað eftir tilnefningum til verðlauna á Degi íslenskrar náttúru

Verðlaunagripur fjölmiðlaverðlaunanna kallast Jarðarberið og er hannaður af Finni Arnari Arnarssyni  - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til tvennra verðlauna sem afhent verða á Degi íslenskrar náttúru. Annars vegar er um að ræða Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Tilnefningarfrestur er til 24. ágúst næstkomandi.

Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um umhverfi og náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins, benda á þær ógnir sem steðja að umhverfi og náttúru eða mikilvægi þess að vernda og verja umhverfi og náttúru til framtíðar.

Umfjöllun um umhverfismál og náttúru hefur aukist til muna á undanförnum árum, bæði innanlands sem og á alþjóðavísu. Má þar nefna aukinn áhuga á íslenskri náttúru samfara örum vexti í ferðamennsku, loftslagsmálum og mikilvægi þess að stemma stigu við ýmiskonar mengun til að tryggja hreint og heilnæmt umhverfi.

Verðlaunin eru veitt á Degi íslenskrar náttúru, 16. september ár hvert, en þau geta hlotið fjölmiðill, ritstjórn, blaða- eða fréttamaður, dagskrárgerðarfólk, ljósmyndari eða rithöfundur sem hefur skarað fram úr með umfjöllun sinni um umhverfismál og/eða íslenska náttúru undangengna tólf mánuði (tímabilið ágúst – ágúst). Til greina koma einstök verkefni eða heildarumfjöllun um náttúru og umhverfismál.

Þriggja manna dómnefnd skipuð fagfólki á sviði fjölmiðla velur vinningshafa úr innsendum tilnefningum en auk þess hefur dómnefnd svigrúm til að taka til skoðunar fjölmiðlaumfjöllun um umhverfi og náttúru utan tilnefninga.

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti

Þá verður Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar. Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði mikið á sig í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.

Óskað er eftir tilnefningum til beggja viðurkenninga í síðasta lagi 24. ágúst 2018. Tilnefningar með rökstuðningi sendist umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eða á netfangið [email protected].

Nánari upplýsingar um Dag íslenskrar náttúru

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta