Hoppa yfir valmynd
14. júní 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íþróttamál og einmanaleiki til umræðu í London

Aðgengi ungs fólks að íþróttum, þátttaka barna af erlendum uppruna í íþróttastarfi og vaxandi einmanaleiki í samfélaginu var aðal fundarefni Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Tracey Crouch, íþróttamálaráðherra Bretlands í London í dag.

Fram kom í máli Tracey Crouch að bresk stjórnvöld leggi áherslu á að virkja minnihlutahópa og eldra fólk til íþróttaiðkunar og er sérstökum fjármunum varið í að ná til þeirra hópa. Í janúar tók Crouch einnig við nýjum málaflokki en þá settu bresk stjórnvöld á stofn ráðuneyti sem ætlað er að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun sem er vaxandi vandamál í Bretlandi. Fram kom í máli hennar að heilsufarsleg áhrif langvarandi einmanaleika séu mjög neikvæð og að yngra fólki sé hættara við slíkum einkennum en þeim sem eldri eru.

„Bæði löndin leggja áherslu á að tryggja gott aðgengi að íþróttum, óháð efnahag. Ég hef lagt áherslu á að skoða sérstaklega þátttöku barna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi til að kanna hvort að staða þess hóps sé lakari en annarra barna. Fundurinn var uppbyggilegur og urðum við sammála um að auka samvinnu Íslands og Bretlands þessum sviðum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Ráðherrarnir komust ekki hjá því að ræða heimsmeistaramótið í Rússlandi og færði Lilja Alfreðsdóttir breska ráðherranum íslenska landsliðstreyju að gjöf í tilefni af þátttöku Íslands á mótinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta