Hoppa yfir valmynd
26. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Smáríkjafundur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hófst í Reykjavík í morgun

Frá smáríkjafundi WHO í Reykavík - myndWHO: David Barrett

Áhrif loftslagsbreytinga og margvísleg ógn sem af þeim stafar er í forgrunni á fundi smáríkja um heilbrigðismál sem nú stendur yfir í Reykjavík og haldinn er á vegum WHO. Fundinn sækja heilbrigðisráðherrar þátttökuþjóðanna, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WHO, embættismenn og sérfræðingar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur undanfarin ár staðið fyrir fundi smáríkja um heilbrigðismál og er fundurinn sem nú stendur yfir í Reykjavík, fimmti fundur ríkjanna sem í hlut eiga. Ríkin eru; Andorra, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, San Maríno og Ísland og eiga þau sammerkt að íbúafjöldi hvers þeirra er innan við milljón.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherraFundurinn í morgun hófst með ávarpi Svandísar Svavarsdóttur  heilbrigðisráðherra sem bauð gesti velkomna til fundarins sem haldinn er með þéttri dagskrá fyrirlestra og pallborðsumræðna og stendur yfir í dag og á morgun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætti til fundarins í morgun og flutti ávarp þar sem hún ræddi vítt og breytt um ýmsa áhrifaþætti heilsu, um samfélagslega ábyrgð, um afleiðingar neysluhyggju, um veðrið og áhrif þess á andlega líðan, um þátttöku Íslands á HM í fótbolta og margt fleira. Hún gerði einnig að sérstöku umtalsefni geðheilsu ungs fólks og velti fyrir sér hverjar væru orsakir vaxandi þunglyndis og kvíða meðal ungmenna. Ræða forsætisráðherra féll í góðan jarðveg og voru margir þættir hennar spunnir áfram í erindum þeirra sem næstir voru á mælendaskrá.

 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna mikilvægt leiðarljós

Ein af mörgum ógnum sem þjóðum stafar af loftslagsbreytingum í heiminum eru neikvæð áhrif þeirra á vatnsöryggi, en hreint vatn er ein af mikilvægum forsendum góðrar lýðheilsu: „Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorunin sem þjóðir heims standa frammi fyrir í dag. Sem fyrrverandi ráðherra umhverfismála er mér ofarlega í huga hvernig áhrif loftslagsbreytinga ógna heilbrigði þjóða“ sagði Svandís meðal annars í opnunarávarpi sínu í morgun. Hún lagði áherslu á þá sameiginlegu skyldu þjóða að sporna við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, meðal annars á heilsu fólks. Viðfangsefnið verði ríkin að nálgast með samþættum og heildstæðum aðgerðum stjórnvalda, þvert á málaflokka og stjórnsýslustig, með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Dr. Zsuzsanna Jakab ræddi um styrk fámennra þjóða

Zsusanna JakabDr. Zsuzsanna Jakab, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WHO, er gestur smáríkjafundarins og tekur virkan þátt í dagskránni. Hún ávarpaði fundinn í morgun og fjallaði einnig um þær ógnir sem þjóðum heims stafar af loftslagsbreytingum: „Mörgum smáríkjum er sérstök hætta búin. Aftur á móti búa þau mörg hver yfir stjórnkerfislegri getu og stefnumörkun til að innleiða nýjar lausnir sem enn fremur geta orðið hvati til alþjóðlegra breytinga“ sagði Dr. Jakab meðal annars í ávarpi sínu, þar sem hún ræddi sérstaklega um þann styrk sem falist getur í smæðinni og gert fámennum þjóðum auðveldara en stórþjóðum að bregðast hratt við erfiðum viðfangsefnum.

Umfjöllunarefni smáríkjafundarins endurspeglast í orðum Dr. Jakab, þar sem áhersla er lögð á hvernig smáríki geta skapað fordæmi og verið fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærra verkefna í þágu velferðar og heilsu, líkt og endurspeglast m.a. í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Ræddar verða áskoranir og tækifæri sem felast í smæð þjóðanna og verður áhersla lögð á samstarf og samábyrgð stjórnvalda og alls samfélagsins við að stuðla að góðri heilsu og vellíðan íbúa. Þá verða ræddir þeir valkostir sem bjóðast smáríkjum við stefnumótun er varðar alhliða heilsuvernd, mikilvægi þrautseigju og seiglu í smáum samfélögum, leiðir til að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma með áherslu á næringu og hreyfingu og áhrif loflagsbreytinga á heilsu og vatnsgæði. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birti fréttatilkynningu á vef sínum í gær þar sem nánar er sagt frá fundi smáríkjanna í Reykjavík.

Blaðamannafundur á morgun

Dr. Zsuzsanna Jakab og Svandís Svavarsdóttir, halda á morgun blaðamannafund þar sem þær gera grein fyrir sameiginlegri yfirlýsingu smáríkjafundarins auk þess að draga saman það helsta sem hæst bar á fundinum.

 

  • Frá smáríkjafundi WHO um heilbrigðismál í Reykjavík - mynd
  • Frá smáríkjafundi WHO í Reykavík - mynd
  • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum