Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til breytinga á lögum vegna afnáms á uppreist æru hafa verið birt á Samráðsgátt

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Dómsmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum vegna afnáms á uppreist æru.

Frumvarpið hefur verið birt í Samráðsgátt og skal umsögnum skilað þar eigi síðar en 29. júlí nk. 

Frumvarpið var unnið í kjölfar breytinga á almennum hegningarlögum frá 30. september sl. með lögum nr. 80/2017. Með lögunum var horfið frá þeirri framkvæmd að stjórnvöld taki ákvarðanir um uppreist æru og var dómsmálaráðuneytinu falin vinna við heildarendurskoðun á því fyrirkomulagi sem felst í uppreist æru og skilyrðum um óflekkað mannorð.

Í frumvarpinu eru kynntar tillögur að slíkri heildarendurskoðun. Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stjórnvöld taki ákvarðanir um uppreist æru og þar af leiðandi verði horfið frá því að gera að skilyrði fyrir kjörgengi til sveitarstjórnar eða því að gegna tilteknum störfum/embættum/stjórnarsetu að viðkomandi hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja megi svívirðilegt að almenningsáliti. Framangreind skilyrði eru tilvísun til skilgreiningar í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis á óflekkuðu mannorði. Þess í stað verði hæfisskilyrði skilgreind sérstaklega í lögum. Með frumvarpinu er lagt til að kjörgengisskilyrði til Alþingis og sveitarstjórna verði rýmkuð í ljósi lýðræðissjónarmiða, en að breyting verði gerð á skilyrðum til þess að öðlast lögmannsréttindi og sinna ýmsum störfum og embættum í réttarvörslukerfinu og þau verði gerð strangari. Þá er lagt til að haldið verði að mestu í óbreytt réttarástand hvað varðar hæfisskilyrði í ýmsum lögum sem ekki heyra undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins, og þannig verði viðkomandi ráðuneytum og starfsstéttum veittur tími og svigrúm til mats á því hvort endurskoða skuli þær kröfur sem þar eru gerðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta