Lagafrumvarp um myndavélaeftirlit í sjávarútvegi til umsagnar
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um myndavélaeftirlit í sjávarútvegi.
Frumvarpsdrögin eru á Samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til að skila inn athugasemdum til og með 10. ágúst. Einnig er hægt að senda inn umsagnir á póstfangið [email protected].
Meginmarkmið meðfylgjandi frumvarps er að skapa traust til sjávarútvegsins með notkun á nýjustu tækni við eftirlit með vigtun, brottkasti og framhjáafla. Frumvarpið er þannig uppbyggt að það tekur til allra fiskihafna, vigtunarleyfishafa og allra skipa sem stunda veiðar í atvinnuskyni.
Nokkur reynsla er komin af myndavélaeftirliti erlendis og er sú reynsla góð. Ef þetta frumvarp verður að lögum yrði Ísland í fremstu röð á þessu sviði sökum þess hve gildissvið þess er víðtækt.
Frumvarpið hefur að geyma nokkur atriði sem snúa að öðru en myndavélaeftirliti og má þar helst nefna að lögð er til föst ísprósenta fyrir afla allra dagróðrabáta.
Nokkur kostnaður mun fylgja samþykkt frumvarpsins vegna þess tæknibúnaðar sem þarf. Það er þó þannig að margir aðilar í útgerð og vinnslu búa nú þegar yfir eigin myndavélakerfum sem hægt er að nýta. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru eingöngu 15 hafnir sem eru ekki með myndavélakerfi svo það sama ætti að gilda þar. Mögulegt er þó að auka þurfi við tækjabúnað eða endurnýja ef hann er ekki af þeim gæðum sem að krafist er. Mikilvægt er að benda á að frumvarpið tekur tillit til ákvæða laga um persónuvernd.