Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel sem hefst á morgun, miðvikudaginn 11. júlí og stendur fram á fimmtudag, 12. júlí.
Meginefni fundarins eru þróun alþjóðaöryggismála og efling varnarviðbúnaðar og stuðningur við grannríki Atlantshafsbandalagsins. Einnig verður fundað með leiðtogum Georgíu og Úkraínu um umbætur og stöðu öryggismála í Suðaustur-Evrópu. Þá munu leiðtogar þátttökuríkja funda um stuðningsaðgerðir bandalagsins í Afganistan og forseti landsins ræða um friðarhorfur og áframhaldandi umbótastarf. Utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar bandalagsríkja munu einnig funda með samstarfsþjóðum á meðan á leiðtogafundinum stendur.
Forsætisráðherra mun jafnframt taka þátt í málstofu sem haldin verður í samvinnu við frjáls félagasamtök og hugveitur í tengslum við leiðtogfundinn þar sem rætt verður um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagið.
Forsætisráðherra mun einnig hitta fulltrúa ICAN (International Campaign to Abolish Nuclear Weapons) á sérstökum fundi á fimmtudeginum. Þá mun forsætisráðherra eiga tvíhliða fund með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og ýmsum leiðtogum aðildaríkjanna á meðan á leiðtogafundinum stendur.
Í sendinefnd Íslands eru, auk utanríkisráðherra, Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, og embættismenn frá forsætis- og utanríkisráðuneytum.