Forsætisráðherra sótti leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sótti leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag. Á fundinum var meðal annars rætt um framlög til varnarmála, fjölþátta ógnir, netöryggi, stöðu mála í Miðausturlöndum og samskiptin við Rússland og Norður-Kóreu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddi um framlög Íslands til varnarmála og nauðsyn þess að efla þróunaraðstoð og mannúðaraðstoð og stuðning við flóttafólk. Þá ræddi hún sérstaklega um mikilvægi kynjajafnréttis fyrir frið í heiminum og þær ógnir sem stafa af loftslagsbreytingum. Hún gerði afvopnun að sérstöku umtalsefni, sérstaklega kjarnorkuafvopnun. Að loknum fyrri fundi leiðtoganna var vinnukvöldverður þar sem einnig voru leiðtogar Finnlands og Svíþjóðar, auk forseta Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta Leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Katrín Jakobsdóttir: „Mér fannst mikilvægt að nálgast öryggismál á breiðum grunni þar sem ógnir nútímans eru síður en svo hefðbundnar hernaðarógnir. Þær kalla á nýjar lausnir þar sem mikilvægast er að stuðla að friði með því að efla jöfnuð og jafnrétti, berjast gegn loftslagsbreytingum og leita friðsamlegra og pólitískra lausna í erfiðum deilumálum. Friðsamlegri heimur hlýtur að vera markmið okkar allra.“
Á sama tíma fór fram sérstakur vinnukvöldverður utanríkisráðherra NATO ásamt leiðtogum samstarfsríkja NATO (Írak, Jórdanía og Túnis).
Leiðtogafundurinn hófst í dag, miðvikudaginn 11. júlí og lýkur á morgun, fimmtudaginn 12. júlí. Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, er gestgjafi fundarins. Í sendinefnd Íslands eru auk forsætisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart NATO, og embættismenn frá forsætis- og utanríkisráðuneytum.