Ísland kjörið í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna
Ísland var í dag kjörið í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna með 172 af 178 greiddum atkvæðum í kosningum sem fóru fram í allsherjarþingi SÞ í New York. Ísland hefur því tekið sæti í ráðinu sem Bandaríkin létu eftir nýverið og mun sitja út kjörtímabilið til ársloka 2019. Fjörutíu og sjö ríki sitja í mannréttindaráðinu sem hefur aðsetur í Genf, þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja (WEOG).
„Hlutverk mannréttindaráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum SÞ og Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur sæti í ráðinu. „Það er gleðilegt hversu breiður stuðningur náðist um kjör Íslands og það hvetur okkur til dáða í þeim verkefnum sem bíða okkar. Þessari stöðu fylgir mikil ábyrgð og er mikilvægt að við Íslendingar stöndum saman í að axla hana.“
Einar Gunnarsson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, kynnti stefnumál Íslands vegna setunnar í mannréttindaráðinu fyrir fullum sal í höfuðstöðvum SÞ í gær og gafst fulltrúum aðildarríkjum og félagasamtaka þar tækifæri til að spyrja spurninga um áherslur Íslands og afstöðu til ýmissa stærstu álitaefna í störfum mannréttindaráðsins.
Fastanefnd Íslands í Genf sinnir störfum Íslands í mannréttindaráðinu sem nú verða nokkuð umfangsmeiri. Mannréttindaráðið fundar þrisvar á ári í föstum fundarlotum þrjár til fjórar vikur í senn. Þess utan kemur það saman til að ræða einstök brýn mannréttindamál. Þá fjallar ráðið um ástand mannréttinda í einstökum aðildarríkjum SÞ með svokallaðri allsherjarúttekt.
Engin útgjöld hafa fylgt framboði Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.