Kynning á fyrsta áfanga þjónustukorts
Ríkisstjórnin samþykkti í dag að tryggja öflun, samræmingu og áreiðanleika gagna sem þarf við áframhaldandi þróun þjónustukorts. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti fyrsta áfanga kortsins með opnun vefsjárinnar thjonustukort.is. Starfshópur skipaður fulltrúum forsætisráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, velferðarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins mun fylgja samþykktinni eftir.
Í ríkisstjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis kemur fram að ríkisstjórnin muni „hefja samstarf við sveitarfélögin um gerð þjónustukorts sem sýnir aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila til að bæta yfirsýn og þar með skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað“. Ábyrgð á framkvæmd þessa verkefnis er hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Með kortlagningu þjónustu betri yfirsýn yfir þá þjónustu sem vantar sem stjórnvöld geta þá brugðist við og hvar tækifærin liggja til framtíðar“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Markmiðið er að auka og bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Þannig er lagður grunnur að bættri þjónustu við almenning, auknum tækifærum til nýsköpunar og frekari stefnumótunar á sviði byggðamála. Afurð verkefnisins verða upplýsingar til landsmanna um þjónustu, settar fram á myndrænan og gagnvirkan hátt.
Ráðherra fól Byggðastofnun að annast gerð þjónustukortsins í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, einstök ráðuneyti eftir því sem við á, stofnanir ríkisins og eftir atvikum fleiri aðila. Áhersla var lögð á að verkefnið yrði sett í forgang og að því yrði lokið fyrir árslok 2018.
Vinna við gerð þjónustukorts er ein af 54 aðgerðum nýsamþykktrar byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024 og er gert ráð fyrir að allt að 20 milljónir renni til verkefnisins.
Staða verkefnisins og áskoranir
Þjónustukortið er unnið í áföngum og er það fyrsti áfangi sem kynntur er í dag með opnun vefsjárinnar thjonustukort.is Þar eru tilteknar upplýsingar á sviði heilbrigðis-, fræðslu- og löggæslumála. Ýmsar mikilvægar upplýsingar vantar í kortið eins og það er birt núna, auk þess sem hönnun útlits og framsetningar á eftir að þróast. Við vinnuna hefur Byggðastofnun m.a. notið aðstoðar Landmælinga Íslands og ráðgjafarfyrirtækisins Alta ehf.
Tilgangur opnunarinnar í dag er fyrst og fremst að gefa almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum kost á að koma á framfæri ábendingum og hugmyndum til Byggðastofnunar um útfærslu og þróun þjónustukortsins. Allar ábendingar og hugmyndir sendist á netfangið [email protected]
Við mótun þjónustukortsins og framkvæmd fyrsta áfanga hafa komið í ljós áskoranir sem ekki eru á valdi Byggðastofnunar einnar að takast á við. Meginþungi vinnunnar er öflun gagna og viðhald þeirra.
Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga:
- Ná þarf betra yfirliti yfir gögn sem nauðsynlegt eða æskilegt er að hafa á bak við þjónustukortið og skipuleggja söfnun og viðhald þeirra í samstarfi við þá opinberu aðila sem bera ábyrgð á viðkomandi málaflokki.
- Í mörgum tilfellum eru gögn til en herslumuninn vantar á að þau séu nothæf fyrir þjónustukortið, m.a. vegna þess að hnitsetningu vantar.
- Gera þarf Þjóðskrá Íslands og Landmælingum kleift að sinna leiðsögn og uppsetningu tæknilegra kerfa sem aðrar stofnanir geta nýtt sér til að búa sín gögn sem best úr garði.