Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2018 Innviðaráðuneytið

Víðtækt samráð um ný umferðarlög

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið leggur áherslu á víðtækt samráð um ný  umferðarlög. Í febrúar síðastliðnum óskaði ráðuneytið eftir athugasemdum almennings við drög að frumvarpi til nýrra laga. Alls bárust 52 umsagnir.

Ráðuneytið sendir nú til umsagnar endurbætt drög að frumvarpi sem taka mið af sjónarmiðum sem fram komu í umsögnum almennings og hagsmunaaðila í fyrra samráði.

Drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga má nálgast í samráðsgátt stjórnvalda. Í almennri greinargerð frumvarpsins eru tíundaðar þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu í kjölfar fyrra samráðs. Unnt er að senda inn umsagnir um frumvarpið til 10. ágúst næstkomandi, en umsagnir verða birtar jafn óðum í samráðsgáttinni.

Markmið með heildarendurskoðun umferðarlaga er að stuðla enn frekar að umferðaröryggi og bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur á samgöngum og samfélaginu í heild á undanförum árum. Árangur hefur náðst í baráttunni gegn umferðarslysum hér á landi undanfarna áratugi, en betur má ef duga skal og hafa slysatölur sýnt aðeins lakara umferðaröryggi hin allra síðustu ár. Mjög brýnt var orðið að endurskoða umferðarlög nr. 50/1987, með síðari breytingum. Töluvert af ábendingum og athugasemdum hafa borist ráðuneytinu vegna umferðarlaga og nauðsynlegum breytingum á þeim. Snúa athugasemdirnar m.a. að hjólreiðum og breyttum samgönguháttum, aukinni sjálfvirkni bíla, ákall um skýrari ákvæði um ljósaskyldu ökutækja í ljósi tækniþróunar, stöðubrotum og sektarheimildum lögreglu og stöðubrotsgjaldaheimildum stöðuvarða, vegaeftirliti, notkun farsíma- og snjalltækja við akstur og skort á hlutlægri refsiábyrgð eigenda og umráðamanna bifreiða á hraðasektum og sektum vegna aksturs gegn rauðu ljósi, þ.e. brot sem nást á löggæslumyndavél.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta