Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2018 Utanríkisráðuneytið

Neysla á fiski aldrei verið meiri á heimsvísu

Fiskframleiðsla hefur aldrei verið jafn mikil á heimsvísu. Árið 2016 var slegið met þegar alls var framleitt 171 tonn af fiski, en 88 prósent af því fór beint á diskinn hjá neytendum. Aukningin er nær öll frá fiskeldi. Þá hefur neysla á fiski aldrei verið jafn mikil því árið 2016 borðaði hver einstaklingur að meðaltali 20,3 kíló af fiski. Vöxturinn í fiskneyslu (3,2 prósent) er raunar orðinn meiri en í neyslu á kjöti (2,8 prósent) frá öllum landdýrum, samanlagt. Þess ber að geta að kjötneysla er enn mun meiri en fiskneysla, eða að meðaltali um 42,9 kíló á mann á heimsvísu, þar af 76,2 kíló á mann í hátekjuríkjum en 33,5 kíló í þróunarríkjum. 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýlegri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), The State of World Fisheries and Aquaculture 2018, en í henni er varpað ljósi á mikilvægi sjávarútvegs og fiskeldis í því að fæða, næra og veita milljónum manns atvinnu um allan heim. Eins og José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri FAO, bendir á hefur árlegur vöxtur á alþjóðlegri fiskneyslu verið tvisvar sinnum meiri en fólksfjölgun í heiminum frá árinu 1961, sem sýnir fram á mikilvægi sjávarútvegs og fiskeldis í því að ná markmiðinu um heim án hungurs og vannæringar. Þar að auki gegnir atvinnugreinin lykilhlutverki í baráttunni gegn fátækt og í að auka hagvöxt meðal ríkja, en vaxandi eftirspurn eftir fiski og hærra verðlag hefur meðal annars aukið verðmæti fiskútflutnings milli ríkja. Árið 2017 nam útflutningurinn metinn á alls 152 milljarða bandaríkjadali, en þar af er 54 prósent upprunninn frá þróunarlöndum. 

Í skýrslunni er staða fiskveiða og fiskeldis meðal annars skoðuð út frá Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sér í lagi markmiði 14 um að vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt. Heimsmarkmiðin taka mið af framlagi sjávarútvegs og fiskeldis hvað varðar fæðuöryggi og næringu, en einnig hvað varðar nýtingu greinarinnar á auðlindum jarðarinnar og að sú nýting sé með sjálfbærum hætti. Skýrslan tekur á ýmsum áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir, meðal annars varðandi undirmarkmið 14.4 um að fyrir árið 2020 skuli verða komið á skilvirku eftirliti með afla og tekið fyrir ofveiði og ólöglegar, óskráðar og stjórnlausar fiskveiðar og skaðlegar veiðiaðferðir. Þá skuli vera komin í framkvæmd áætlun um stjórn fiskveiða, sem byggjast á vísindalegum grunni, í því skyni að endurheimta fiskstofna á sem skemmstum tíma. Í skýrslunni segir að erfitt verði að endurheimta fiskstofna á skömmum tíma, slíkt taki tíma, en talið er að of mikið sé veitt í 33,1 prósent af öllum fiskstofnum heims. Eigi markmiðið að nást þurfi því mikla samvinnu hátekjuríkja og þróunarríkja, sér í lagi hvað varðar stefnumótun, fjármögnun, mannauð og tækni, en reynslan sýnir að endurheimt ofveiddra fiskstofna felur jafnan í sér félagslegan, efnahagslegan og vistfræðilegan ávinning fyrir alla. 

Hér má lesa skýrsluna í heild.
 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta