María Heimisdóttir tekur við embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Maríu Heimisdóttur forstjóra Sjúkratrygginga Íslands til næstu fimm ára. Hún tekur við embættinu þegar Steingrímur Ari Arason, núverandi forstjóri, lætur af störfum 31. október næstkomandi.
Skipunin er í samræmi við tillögu stjórnar sjúkratrygginga en María var önnur tveggja sem stjórnin taldi hæfasta til að gegna embættinu. Ráðherra ræddi við þessa tvo umsækjendur og tók í kjölfar þess ákvörðun sína um skipun í embættið.
María Heimisdóttir lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1990. Hún stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum, lauk MBA námi frá University of Connecticut árið 1997 með áherslu á stjórnun í heilbrigðisþjónustu, og síðan doktorsnámi í lýðheilsufræðum (PhD), samhliða vinnu við kennslu og rannsóknir, frá University of Massachusetts árið 2002.
María hefur frá árinu 2010 verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala en hafði áður veitt forstöðu upplýsinga- og hagdeild spítalans árin 2006 – 2010. Árin 1999 til 2002 starfaði María hjá Íslenskri erfðagreiningu við þróunarverkefni. María er klínískur lektor við læknadeild Háskóla Íslands, hefur birt vísindagreinar í innlendum og erlendum fræðiritum, sinnt akademískum leiðbeinanda- og prófdómarastörfum og stundað kennslu á sviði stjórnunar, lýðheilsu og klínískrar upplýsingatækni, m.a. í læknadeild og félagsfræðideild HÍ.
Ellefu umsækjendur voru um embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Ráðningarferlið fór þannig fram að þriggja manna hæfnisnefnd sem starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu mat hæfni þeirra ellefu umsækjenda sem sóttu um starfið. Niðurstaða hæfnisnefndar fór fyrir stjórn Sjúkratrygginga Íslands sem á grundvelli þess mats gerði tillögu til ráðherra, líkt og kveðið er á um í lögum um sjúkratryggingar. Hæfnisnefnd mat þrjá umsækjendur hæfasta, fjóra umsækjendur vel hæfa, tvo hæfa en tveir umsækjendanna uppfylltu ekki að fullu skilyrði auglýsingar. Stjórnin taldi tvo hæfasta af þeim þremur sem hæfnisnefndin hafði metið svo og lagði sem fyrr segir þá niðurstöðu sína fyrir ráðherra til ákvörðunar.